Svekkjandi tap gegn toppliðinu

Margrét Árnadóttir í leik með Þór/KA síðastliðið sumar.
Margrét Árnadóttir í leik með Þór/KA síðastliðið sumar. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Margrét Árnadóttir og liðsfélagar hennar í botnliði Parma máttu sætta sig við naumt tap, 2:3, gegn toppliði Roma í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag.

Þrátt fyrir ólíka stöðu liðanna í deildinni var um hörkuleik að ræða.

Parma komst yfir snemma leiks áður en Roma sneri taflinu við. Heimakonur í Parma jöfnuðu svo metin í 2:2 skömmu fyrir leikhlé.

Roma skoraði svo sigurmarkið rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok. Skömmu síðar, á 78. mínútu, kom Margrét inn á sem varamaður í sínum öðrum leik fyrir Parma.

Parma er enn á botni deildarinnar með aðeins sex stig þó leikur dagsins muni eflaust hvetja liðið til dáða, enda Roma á toppnum með 36 stig, fimm stigum meira en Juventus í öðru sæti.

Sara Björk var ekki í leikmannahópi Juventus í dag vegna meiðsla, þegar liðið vann 2:1-sigur á útivelli gegn Pomigliano.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert