„Tilvera Íslandspósts er umdeilanleg“

Ný lög um póstþjónustu tryggja það að sömu gjaldskrár gildi …
Ný lög um póstþjónustu tryggja það að sömu gjaldskrár gildi um allt land. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, tekur undir gagnrýni framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda á fyrirkomulagi póstþjónustu hér á landi. „Þetta er hárrétt, það sem [Ólafur] er að segja, en það er ekki eins og þetta sé ákvörðun Íslandspósts,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Í aðsendri grein Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, fer hann hörðum orðum um stjórnarhætti Íslandspósts og segir ríkisfyrirtækið stunda undirverðlagningu sem stangast á við lög.

„Tilvera Íslandspóst er umdeilanleg. Þetta er fyrirtæki í ríkiseigu og ríkið hefur ákveðið að við eigum að vera á samkeppnismarkaði. Það er erfitt og skapar árekstra,“ segir Birgir. „Og ég get alveg séð að það eru pólitískar skoðanir um það hversu langt ríkið á að seilast inn í atvinnulífið og ég er svo sem ekkert ósammála þeim skoðunum sjálfur.“

Starfa undir stöðugu eftirliti

Birgir leggur hins vegar áherslu á að gagngert eftirlit sé með Póstinum sem myndi ekki láta fram hjá sér fara ef fyrirtækið starfaði í bága við lög. „Við erum undir kastljósi Samkeppniseftirlitsins, við erum með sérstaka nefnd sem starfar í kringum okkur, við erum með Póst- og fjarskiptastofnun, við erum með Ríkisendurskoðun, við erum með alla á bakinu á okkur.“

„Við erum sífellt að draga okkur út úr samkeppni, við erum t.d. hætt að dreifa fjölpósti þar sem það var í samkeppni við einkafyrirtæki. Við erum að reyna að minnka svona árekstra en þeir eru þó alltaf til staðar vegna þess að ríkið er ekki búið að setja okkur á fjárlög. Meðan Íslandspóstur þarf að reka sig sem fyrirtæki þá er þetta frekar óheppilegt rekstrarform í raun og veru.“

Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts.
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fara eftir lögum í einu og öllu 

Staðhæfingum Ólafs um að Íslandspóstur stundi ólöglega verðlagningu og niðurgreitt undirboð þjónustu vísar Birgir alfarið á bug. „Við erum að fara eftir lögum, og lögin segja að það eigi að vera eitt verð fyrir allt landið. Eitt land, það þýðir að við erum annaðhvort að verðleggja okkur út af markaðnum, t.d. í höfuðborginni, með því að vera með það hátt verð að það endurspeglar kostnaðinn úti á landi. Eða þá að við finnum eitthvað svona meðalverð, en þá er þetta í raun orðið byggðamál. Þetta er í raun bara pólitíkin að ákveða það að ríkið ætlar að niðurgreiða póstþjónustu fyrir landsmenn.“

Lagaákvæðið sem Birgir vísar til er í 17. gr. nýrra laga um póstþjónustu, sem tóku gildi um áramótin, en þar segir að gjaldskrár fyrir alþjónustu skulu vera þær sömu um allt land. Birgir segir þetta ákvæði nýju laganna útskýra mikla lækkun gjaldskrár fyrir pakka- og vörusendingar utan höfuðborgarsvæðisins. „Þegar [Ólafur] segir að við höfum lækkað verðið úti á landi, þá er það alveg hárrétt hjá honum, það gerðist síðustu áramót. Það var bara vegna þess að annars hefðum við þurft að hækka það svo mikið hérna í Reykjavík að þá hefðum við einfaldlega kippt rekstrargrundvellinum undan fyrirtækinu.“

Svo þú ert þá sammála þessari staðhæfingu Ólafs um að þetta sé mismunun gagnvart einkaaðilum sem eru í samkeppni við Íslandspóst?

„Já, það er bara pólitísk ákvörðun að ríkið ætlaði að borga með þessu eina ákvæði, „eitt land, eitt verð.“ Það sem er gott við þetta, og þess vegna fagna ég þessari umfjöllun hjá honum, er að við verðum að fara að finna einhverja högun á þessum málum. Við getum ekki alltaf verið í einhverjum skotgröfum á meðan Félag atvinnurekenda og einkamarkaðurinn ræðst á okkur, því við erum bara að reyna að uppfylla þetta hlutverk sem félaginu er gefið af ríkinu. Ég og mitt fólk höfum engan persónulegan ávinning af því að vera í einhverri undirverðlagningu, við erum bara að reyna að reka fyrirtækið samkvæmt lögum og reglum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK