Veisluhöldum frestað í Vestmannaeyjum

Haukamaðurinn Andri Már Rúnarsson stingur sér í gegn í kvöld.
Haukamaðurinn Andri Már Rúnarsson stingur sér í gegn í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Haukar eru enn á lífi í úrslitaeinvígi sínu gegn ÍBV eftir 34:28-útisigur í troðfullri íþróttamiðstöð Vestmannaeyja í kvöld. Er staðan í einvíginu nú 2:1 og fer þriðji leikurinn fram á Ásvöllum á mánudag. Þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari.

Jafnræði var með liðunum framan af og staðan 3:3 þegar nokkrar mínútur voru liðnar. Haukar komust í kjölfarið í 5:3 og var munurinn þá meira en eitt mark í fyrsta skipti. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur og var staðan 9:7, Haukum í vil, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður.

Spilamennska Hauka var meira sannfærandi fyrsta korterið og skoruðu gestirnir auðveldari mörk. Hinum megin fann Aron Rafn Eðvarðsson sig ekki í markinu og fyrir það gátu Eyjamenn helst þakkað að munurinn var ekki meiri á þeim tímapunkti.

Haukar komust þremur mörkum yfir í fyrsta skipti á 23. mínútu, 13:10, og svo fjórum mörkum yfir, 14:10. Eyjamenn eru þekktir fyrir flest annað en að leggja árar í bát og það sýndu þeir enn og aftur, með því að minnka muninn í 14:13.

ÍBV spilaði næstu sóknir án markvarðar, eftir að Róbert Sigurðarson fékk brottvísun. Haukar nýttu sér það gríðarlega vel, skoruðu tvö mörk í autt markið og komust þremur mörkum yfir á ný, 16:13. Munaði einmitt þremur mörkum í hálfleik, 17:14.

Ólafur Ægir Ólafsson lék afar vel fyrir Hauka í hálfleiknum og skoraði sex mörk. Stefán Rafn Sigurmannsson og Guðmundur Bragi Ástþórsson  gerðu þrjú mörk hvort og vörn Haukamanna var heilt yfir mjög góð. Rúnar Kárason skoraði sex mörk fyrir ÍBV og var langstærsta ástæða þess að munurinn var ekki meiri í hálfleik.

Haukar voru áfram skrefi á undan í byrjun seinni hálfleiks og var munurinn enn þrjú mörk eftir sex mínútur í honum, 19:16. Haukar náðu svo fjögurra marka forskoti á ný eftir tæpar tíu mínútur í seinni hálfleik, 21:17. Gekk Eyjamönnum því illa að saxa á forskotið framan af í seinni hálfleik.

Haukar náðu fimm marka forskoti um miðjan seinni hálfleikinn, 24:19, og var róðurinn orðinn þungur fyrir Eyjamenn. Þegar rúmar tíu mínútur eftir var munurinn fjögur mörk og Haukarnir farnir að horfa á annan heimaleik í hillingum.

Aron Rafn skoraði 28. mark Hauka í autt mark ÍBV á 52. mínútu og kom gestunum í 28:22 og var þá ljóst í hvað stefndi. Haukum tókst ætlunarverk sitt og skemmdu partíið í Vestmannaeyjum.

Ólafur Ægir Ólafsson skoraði 8 mörk fyrir Hauka, eins og Stefán Rafn Sigurmannsson. Rúnar Kárason hjá ÍBV var markahæstur allra með 13 mörk. Kári Kristján Kristjánsson skoraði 5 fyrir heimamenn. 

Eyjamaðurinn Rúnar Kárason skýtur að marki Hauka í kvöld.
Eyjamaðurinn Rúnar Kárason skýtur að marki Hauka í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
ÍBV 28:34 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Haukar vinna magnaðan sigur á Eyjamönnum og gjörsamlega skemma það partý sem Eyjamenn voru búnir að undirbúa. Magnaður leikur gestanna sem gerðu vel allan leikinn. Ásgeir Örn fær risa hrós fyrir það hvernig hann lagði upp leikinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert