Arctic Green Energy China ehf. hagnaðist um 90 milljónir króna á síðasta ári en árið áður nam tap félagsins 249 milljónum króna. Fjármunatekjur námu 218 milljónum króna en árið áður voru þær neikvæðar um 74 milljónir króna. Runnu 568 milljónir króna til félagsins í formi hlutdeildar í afkomu hlutdeildarfélags, en félagið á 46% hlut í kínverska félaginu Sinopec Green Energy Geothermal Development Co. (SGEG) sem metinn er á ríflega 10 milljarða króna.

Eftirstandandi 54% hlutur er í eigu Sinopec Star Petroleum Co. sem er dótturfélag China Petrochemical Corporation, einnig þekkt sem Sinopec Group. Meginstarfsemi SGEG felur í sér þróun og rekstur jarðvarmaþjónustu í Kína.

Eignir Arctic Green Energy China námu 10,5 milljörðum króna í lok árs 2020 og eigið fé 436 milljónum.

Í ársreikningi Arctic Green Energy China kemur fram að tilgangur með starfsemi félagsins sé að stuðla að stofnun félaga í Kína með sérhæfingu í jarðvarma og fjárfestingum í slíkum félögum.