Innlent

Segir stór­sókn í heil­brigðis­málum helst felast í fjár­festingum í steypu

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur.
Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur. Stöð 2/Ívar Fannar

Stjórn Læknafélags Íslands krefst þess að gripið verði til markvissra aðgerða í heilbrigðiskerfinu í ákalli til stjórnvalda. Formaður Læknafélags Reykjavíkur segir stöðuna alvarlega um allt kerfið.

„Við erum að lýsa yfir áhyggjum okkar yfir ástandinu í heilbrigðiskerfinu öllu saman. Það er sama hvar drepið er niður. Það er slæmt ástand víðast hvar. Hvort sem maður horfir til heilsugæslunnar, til sjálfstætt starfandi lækna, til spítalans, til öldrunarþjónustunnar. Það vantar pláss á hjúkrunarheimilum og það sárvantar að efla heimahjúkrun,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, í samtali við fréttastofu.

Fram kemur í yfirlýsingu Læknafélags Íslands að kvörtunum til landlækis hafi fjölgað. Á tölum frá landlæknisembættinu sést að kvörtunum fjölgaði markvisst frá árinu 2016 en fjölgaði mest þegar kórónuveiran geisaði árið 2021. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs fjölgaði kvörtunum um 8,5 prósent.

Þá fjölgaði fyrirspurnum í gegnum heilsuveru um 393 prósent, en þessum fyrirspurnum svara læknar.

Huga þurfi frekar að mannauðnum

Ráðamenn tali um stórsókn í heilbrigðismálum, en að sögn Ragnars felst það fyrst og fremst í að fjárfesta í steinsteypu.

„Við sjáum ekki annað við læknarnir að það sé fyrst og fremst verið að reisa byggingar og okkar skilaboð eru að það þarf að huga sérstaklega að mannauðnum, fólkinu sem sinnir sjúklingunum,“ segir Ragnar.

Álag sé einfaldlega alltof mikið.

„Tökum til dæmis spítalann þá er gjarnan yfir 100% rúmanýting. Það er almennt talað um það að þegar talan fer yfir 85 prósent þá sé komið neyðarástand. Her er yfirleitt um 105 prósent rúmanýting. Það segir sína sögu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×