Alfreð kominn með fullskipaðan hóp – Spánn missir tvo

Alfreð Gíslason er kominn með 16 manna hóp á ný.
Alfreð Gíslason er kominn með 16 manna hóp á ný. AFP

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska karlalandsliðsins í handknattleik, getur teflt fram fullskipuðum hópi, sextán mönnum, gegn Evrópumeisturum Spánverja í fyrstu umferð milliriðlakeppni EM í Bratislava í dag.

Þrátt fyrir alls tólf smit í hópi Þjóðverja hefur þeim tekist að fá nýja leikmenn í staðinn og þeir hafa hreinlega komið á færibandi til Bratislava síðustu sólarhringana. Þýska handknattleikssambandið staðfestir nú á heimasíðu sinni að Lukas Stutzke, David Schmidt og Tobias Reichmann séu allir mættir til slóvakísku höfuðborgarinnar.

Þar með eru sextán leikmenn klárir í leikinn í stað þrettán eins og útlit var fyrir. Bæði Þýskaland og Spánn unnu sína riðla með fullu húsi stiga og hefja bæði keppni í milliriðlinum með tvö stig.

Þá staðfesti sambandið að engin ný smit hefðu greinst í þýska hópnum í dag sem eru góðar fréttir eftir áföllin sem hafa dunið yfir liðið undanfarna daga.

Spánverjar hafa hinsvegar misst út tvo leikmenn sem greindust með jákvæð smit. Það eru Joan Canellas og Ian Tarrafeta, sem báðir eru komnir í einangrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert