Fjármálastjóri ISIS handtekinn

Sami Jasim al-Jaburi.
Sami Jasim al-Jaburi. AFP

Írak segist hafa handsamað Sami Jasim al-Jaburi, fjármálastjóra hryðjuverkasamtakanna Ríki Íslams, í aðgerð sem náði út fyrir landamæri Írak, að því er segir í frétt BBC.

Mustafa al-Kadhimi forsætisráðherra Írak sagði á Twitter að al-Jaburi hefði verið handtekinn af írösku leyniþjónustunni. Hann tók þó ekki fram hvar hann hefði verið handtekinn.

Bandaríkin höfðu boðið fimm milljónir dollara fyrir upplýsingar sem leiddu til handtöku hans. 

Á vefsíðunni Rewards for Justice, sem er á vegum FBI, segir að hann hafi „gegnt lykilhlutverki í fjármálastjórn hryðjuverkaaðgerða Ríki Íslams“ og að hann hafi haft umsjón með „tekjuöflunarstarfsemi samtakanna, ólöglegri sölu á olíu, gasi, forminjum og steinum,“ eftir að samtökin lögðu undir sig stóran hluta Íraks og Sýrlands árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert