Síðari leikur Liverpool og Leipzig fer fram í Búdapest

Úr fyrri leik Liverpool og RB Leipzig á Puskas-vellinum í …
Úr fyrri leik Liverpool og RB Leipzig á Puskas-vellinum í Búdapest. AFP

Búið er að staðfesta að síðari leikur Liverpool og RB Leipzig í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu muni einnig fara fram á Puskas-vellinum í Búdapest í Ungverjalandi.

Fyrri leikurinn, sem var skráður sem heimaleikur Leipzig, fór fram á vellinum þar sem Liverpool vann góðan 2:0 útisigur. Heimaleikur Liverpool mun nú sömuleiðis fara fram á Puskas-vellinum þegar liðin mætast öðru sinni í næstu viku.

Ástæðan fyrir tilfærslunum eru strangar reglur vegna kórónuveirufaraldursins í bæði Bretlandi og Þýskalandi.

Tilfærslur sem þessar eru síður en svo einsdæmi undanfarið þar sem Arsenal spilaði heimaleik sinn í Evrópudeildinni gegn Benfica í Grikklandi, Manchester United spilaði heimaleik sinn gegn Real Sociedad í Belgíu, Leicester City spilaði heimaleik sinn gegn Slavíu Prag í Hollandi og Borussia Mönchengladbach spilaði heimaleik sinn gegn Manchester City í Meistaradeildinni á Puskas-vellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert