Sparisjóðurinn Indó opnaði formlega dyrnar á mánudag eftir hátt í 5 ára undirbúningsvinnu. Þar geta nú allir stofnað veltureikning og þegið á innstæðuna 2,5% ársvexti – umtalsvert meira en til boða stendur hjá öðrum innlánastofnunum í dag.

Samhliða opnuninni á mánudag hækkaði Indó innlánsvexti sína úr 1,65% í áðurnefnd 2,5%, sem segja má að sé í takt við almenna vaxtaþróun nýverið, en til samanburðar fást frá 0,4-0,75% innlánsvöxtum á hefðbundna veltureikninga hjá stóru bönkunum og fylgja þeir vextir þróun markaðsvaxta lítið sem ekkert. Viðbrögðin hafa ekki staðið á sér; síðdegis á miðvikudag höfðu á fjórða þúsund manns skráð sig í viðskipti í appi hins nýja sparisjóðs.

„Þessi vika hefur verið ótrúleg og við erum óendanlega þakklát fyrir þessar frábæru viðtökur, sem hafa þegar farið langt fram úr björtustu vonum. Í hóp Indóa bættust um 3.200 manns og eru nú yfir 9.000 manns komin í hóp venjulegs fólks sem hefur sagt bless við þjónustugjöld, árgjöld og gjaldeyrisálag. Það er einstaklega gefandi að finna fyrir áhuganum hjá fólki á að nota einfalda og gagnsæja bankaþjónustu, lausa við allt bull,” segja stofnendurnir Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson um það sem af er opnunarvikunni.

Fréttin er hluti af lengra viðtali við Hauk & Tryggva í Viðskiptablaði vikunnar.