Staða hinsegin nemenda „óásættanleg“

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Hari

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar benti á það, í umræðum um störf þingsins nú síðdegis, að samkvæmt könnun Samtakanna 78 hafi þriðjungur nemenda í skólum greint frá því að finna til óöryggis með kynhneigð sína. Þá hafi næstum þriðjungur hinsegin nemenda verið áreittur munnlega vegna kynhneigðar sinnar.

„Þetta er óásættanlegt gagnvart þessum ungmennum okkar og óásættanlegt gagnvart samfélaginu,“ sagði Hanna Katrín í ræðu sinni.

Þörf á aukinni fræðslu

Hún sagði einnig að hinsegin börn ættu rétt á því að njóta sömu tækifæra og rétt á því að upplifa öryggi í skólanum og að starfsfólk skólanna gegndi þar lykilhlutverki. Ekki nægði að einn kennaranemi hefði áhuga á fjölbreytileika nemenda sinna.

Aukna fræðslu þyrfti til að allir kennarar hefðu þekkingu á málefnum hinsegin nemenda. Réttast væri að stærðfræðikennarar, íþróttakennarar, jarðfræðikennarar kynnu allir sem einn skil á þörfum hinsegin barna, eins og Hanna Katrín lýsti.

Þörf hinsegin barna sagði Hanna vera skýra. Niðurstöður fyrrnefndrar könnunar Samtakanna 78 sagði Hanna Katrín sýna að hinsegin börn kölluðu eftir námsefni „ýtir undir þeirra eigin sýnileika.“

Þingfundur heldur áfram

Enn er verið að ræða störf þingsins á Alþingi. Guðmundur Ingi Kristinsson hjá Flokki fólksins ræddi til að mynda um þörf efnaminni fjölskyldna til mataraðstoðar og benti á aðgerðaleysi stjórnvalda í því sambandi.

Þá ræddu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, báðar um viðbragð stjórnvalda við kórónuveirunni, svo aðeins sé drepið á örfáu sem rætt hefur verið það sem af er þingfundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert