fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Kolbrún tætir í sig framburð morðingjans um einhverskonar sjálfsvörn – „Hrein og klár aftaka“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 23. september 2021 11:15

Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Málflutningur stendur nú yfir í Rauðagerðismálinu í kjölfar umfangsmikilla vitnaleiðslna sem stóðu yfir alla síðustu viku. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari flutti málið fyrir hönd ákæruvaldsins.

Kolbrún færði rök fyrir því að morðið á Armando Beqirai, sem skotinn var til bana fyrir utan heimili sitt laugardagskvöldið 13. febrúar, hafi verið þaulskipulagt, og glæpurinn hafi verið framinn í samverknaði fjögurra manneskja.

Kolbrún sagði framburð Angjelins Sterkaj fyrir dómi, þar sem hann sagði að verknaðurinn hafi með einhverjum hætti verið sjálfsvörn, ekki standast. Hún vakti athygli á því undir hvaða kringumstæðum Angjelin játaði fyrst glæpinn fyrir lögreglu.

Böndin bárust fljótt að Angjelin eftir dauða Armandos og var hann handtekinn þriðjudaginn 16. febrúar. Kolbrún bendir á að Angjelin hafi ekki játað verknaðinn hjá lögreglu fyrr en við þriðju skýrslutöku, þann 19. mars, eftir að lögregla var búin að kynna honum ítarlega öll þau gögn sem hún hafði aflað, meðal annars morðvopnið sjálft og beðið var niðurstöðu DNA-rannsóknar. Lögregla taldi upp 13 sönnunargögn sem bentu til sektar hans. Það hafi fyrst verið í þessum aðstæðum sem Angjelin játaði að hafa drepið Armando.

Sjá einnig: Verjandi Angjelins segir drápið örþrifaráð manns sem kominn var upp að vegg – Hótanir um að myrða soninn og skaða fjölskylduna

„Þegar maður skoðar þetta mál í heild sinni bendir allt  til að þessi atburður hafi verið ansi vel skipulagður, sem er andstætt því sem ákærði heldur fram,“ sagði Kolbrún. Angjelin segir að hann hafi farið að húsi Armandos til að ræða við hann en Armando hafi verið vopnaður og hafi ógnað honum og hann hafi þess vegna skotið hann. Kolbrún segir þennan framburð ekki standast.

Athafnir Angjelins fyrir og eftir morðið sýni augljóslega ásetninginn og skipulagninguna varðandi glæpinn. Til dæmis að Angjelin skuli hafa farið úr sumarhúsi í Varmahlíð til Reykjavíkur á laugardegi og farið þangað aftur samdægurs, ennfremur að hann hafi gert ráðstafanir til að leigja bústaðinn tvær nætur í viðbót eftir morðið.

Enn fremur að hann hafi skilið síma sinn og úr eftir í Skagafirði þegar hann keyrði til Reykjavíkur á laugardeginum, „hann veit að þetta eru gögn sem geta staðsett hann,“ sagði Kolbrún og taldi skýringar Angjelin á þessu framferði ekki standast. „Ákærði er mjög vanur því að gera ákveðna hluti sem þola ekki dagsljósið og hann skilur eftir hluti sem geta staðsett hann,“ sagði Kolbrún.

„Hann var búinn að skrúfa hljóðdeyfinn á byssuna“

Kolbrún sagði að Angjelin hefði setið fyrir Armando og þetta hafi ekki verið neinn sáttafundur eins og Angjelin hefur reynt að halda fram, en hann segist hafa farið til Armandos til að reyna að ræða við hann um þær deilur sem þeir áttu í.

„Hann situr fyrir Armando, kemur með byssu og hljóðdeyfi og hann var búinn að skrúfa hljóðdeyfinn á byssuna þegar Armando kom út úr bílskúrnum,“ sagði Kolbrún og benti á að gögn úr eftirlitsmyndavélum sýni að 57 sekúndur hafi liðið frá því Armando kom út úr bílskúrnum og þar til Angjelin var farinn á brott og allt var afstaðið. Aðstæður bendi ekki til að Armando hafi ógnað Angjelin þarna og ekkert bendi til að hann hafi haft tækifæri til að ráðast á Angjelin.

Á þessum tíma hafi Armando verið skotinn 9 skotum og þar af hafi tvö hæft hann í bakið. Ekkert bendi því til sjálfsvarnar, þetta hafi verið „hrein og klár aftaka“.

Angjelin hefur haldið því fram að Armando hafi verið með byssu og að hann hafi lagt hana frá sér í bílskúrnum. Kolbrún benti á að engin byssa hafi fundist, þar hafi leit verið gerð og vettvangurinn innsiglaður svo enginn hafði tækifæri til að fjarlægja vopn þaðan. Þóranna, eiginkona Armandos, hafi ennfremur vitnað um að hún hafi aldrei séð hann vopnaðan og að henni vitandi hafi hann ekki átt skotvopn.

Vildi Angjelin ekki að fundurinn yrði haldinn?

Kolbrún dró einnig fram mikilvægt atriði í framburði Angjelins þegar hann játaði hjá lögreglu, þegar hann sagðist hafa verið einn að verki. Angjelin segi að enginn annar hafi vitað hvað „ég ætlaði að gera“, sem sýni að hann hafi verið búinn að ákveða að myrða Armando áður en hann fór heim til hans kvöldið örlagaríka.

Kolbrún vísaði ennfremur til framburðar vitna um að sáttafund hefði átt að halda á mánudeginum á milli ósáttra hópa, annars vegar Armandos og samverkamanna hans, og hins vegar Antons Kristins Þórarinssonar og hans manna.  Svo virðist sem Angjelin hafi viljað koma í veg fyrir fundinn. Það bendi til þess að framburður sumra vitna í þessu samhengi sé réttur, um það að Angjelin hafi verið að bera lygasögur í Anton Kristinn Þórarinsson um áform Armandos og manna tengdum honum gegn Antoni, og Angjelin hefði ekki viljað að lygar hans yrðu afhjúpaðar á fundinum.

Segir ekkert benda til yfirvofandi árásar

„Við búum ekki í  þannig samfélagi að ef maður telji sér ógnað þá fái maður sér bara byssu,“ sagði Kolbrún en hún telur erfitt að henda reiður á gegn hverjum hótanir Armandos beindust og ekki sé ljóst hversu alvarlega átti að taka þær. Angjelin hafi haft önnur úrræði en þau að skjóta Armando til bana og eðlilegt hafi verið fyrir hann að leita til lögreglu ef hann taldi sér ógnað.

Varðandi framburð þeirra þriggja sem sökuð eru um samverknað með Angjelin í málinu þá fór Kolbrún yfir það að bæði gögn og ósamræmi í vitnisburði ákærðu, annars vegar hjá lögreglu og hins vegar fyrir dómi, styddu ásakanir um sekt þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga