Vonast til þess að opna veginn klukkan fjögur

Hluti farþega gisti um borð í Norrænu.
Hluti farþega gisti um borð í Norrænu. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Um það bil 140 farþegar Norrænu bíða á Seyðisfirði eftir að komast til Egilsstaða en farþegar ferjunnar hafa verið fastir á Seyðisfirði síðan í gærmorgun vegna veðurs.

„Þetta er að mestu fólk sem að kom með ferjunni í gær og fékk að gista þar í nótt en þar sem að ferjan fer í kvöld þá er einhver hluti af þeim sem að þurfa að komast yfir til þess að finna gistingu annars staðar. Svo eru allavega sextíu bílar á Egilsstöðum sem ætla með ferjunni í kvöld þannig það þarf að reyna að koma þeim yfir líka,“ segir Sólveig Gísladóttir, starfsmaður í samskiptadeild Vegagerðarinnar.

Mjög vont veður

Sólveig segir jafnframt að allt kapp sé lagt á að reyna að opna veginn yfir Fjarðarheiði en mjög vont veður sé enn á svæðinu. Snjóblásari og plógur verði sendir um hádegi en vonast sé til þess að hægt verði að opna veginn um klukkan fjögur.

„Með öllum fyrirvara um að veðrið versni ekki mikið meira,“ segir Sólveig að lokum og hvetur fólk til þess að fylgjast með gangi mála á umferdin.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka