Handbolti

Valur selur Tuma Stein til Þýskalands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tumi Steinn Rúnarsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Val, í bili allavega.
Tumi Steinn Rúnarsson hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Val, í bili allavega. vísir/Elín Björg

Íslands- og bikarmeistarar Vals hafa selt leikstjórnandann Tuma Stein Rúnarsson til þýska B-deildarliðsins Coburg 2000 samkvæmt heimildum íþróttadeildar.

Tumi Steinn er uppalinn hjá Val en lék með Aftureldingu á árunum 2018-20. Hann sneri aftur í Val fyrir síðasta tímabil og varð tvöfaldur meistari með liðinu.

Hinn 21 árs Tumi Steinn hefur skorað 53 mörk og gefið 27 stoðsendingar í ellefu leikjum í Olís-deildinni. Valsmenn eru í 4. sæti hennar með átján stig en eiga leik til góða á liðin fyrir ofan.

Tumi Steinn hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands og var meðal annars hluti af U-18 ára liðinu sem vann til silfurverðlauna á EM 2018.

Coburg er í 13. sæti þýsku B-deildarinnar. Liðið hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum. Næsti leikur Coburg er gegn Emsdetten 5. febrúar. Þar mætir Tumi Steinn væntanlega fyrrverandi samherja sínum í Val, Antoni Rúnarssyni.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×