Ekkert ferðaveður í fyrramálið

Sú gula er í gildi.
Sú gula er í gildi. Kort/Veðurstofa Íslands

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar, segir að fólk eigi að forðast ferðalög í fyrramálið þegar snörp lægð fer yfir landið. Hægt verði að ferðast um hvítasunnuhelgina en ferðalangar eigi að forðast öll ferðalög í fyrramálið.

Mögulegar vegalokanir í fyrramálið og vetrarþjónusta

Einar var nýkominn af samráðsfundi í Vegagerðinni og búa menn þar sig undir að sinna vetrarþjónustu á fjallvegum á Vestfjörðum, þar sem jörð mun hvítna og jafnvel að vegum verði lokað tímabundið víða um land. Vegagerðin er enn að vinna mat sitt en býst við að hafa sent út tilkynningar fyrir klukkan 18 í dag.

Grípa gæti til vegalokanna í hvelllinum sem gengur yfir í …
Grípa gæti til vegalokanna í hvelllinum sem gengur yfir í fyrramálið mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svona skellur á þessum árstíma er fátíður, en þó ekki óþekktur. Hér eru dreggjar vetrar að kveðja en betri tíð er framundan og spáð blíðskaparveðri víða eftir helgina. Helgin sjálf litast af vindum og úrkomu, en sýnu verst verður ástandið í fyrramálið.

Sandur og grjót getur farið af stað

Einar varar við því að þurrt hafi verið suðaustanlands og þá þurfi ekki mikið til að vindur fari að hreyfa við sandi og grjóti sem geri aðstæður hættulegar. Þetta er ástand sem sérstaklega eigi að vara erlenda ferðamenn við. Þetta er þekkt veður þegar sterkir vindar standa ofan af Vatnajökli og litar veður allt austur frá Kirkjubæjarklaustri og austur í Berufjörð.

Hann ítrekar þau tilmæli að annaðhvort eigi fólk að ferðast fyrir fótferðartíma í fyrramálið eða bíða eftir að skellurinn sé genginn yfir fljótlega eftir hádegi á morgun.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert