Á annan tug talin af eftir flugslys

Frá flugslysinu.
Frá flugslysinu. Ljósmynd/Rússneska neyðarmálaráðuneytið

Á annan tug eru talin af eftir flugslys sem varð í Rússlandi í morgun. Vélin hrapaði í Tatarstan í Rússlandi en rússneskir miðlar greina frá því að 23 hafi verið um borð í vélinni, þar af 21 fallhlífarstökkvari og tveir flugmenn. 

AFP segir að óttast sé að 16 séu látnir en ýmsir rússneskir miðlar vilja meina að sú tala sé nær 19. 

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneyti Rússlands segir að um sé að ræða L-410 flugvél sem hrapaði um klukkan 9:23 í morgun að staðartíma þegar hún flaug yfir Tatarstan.

Fleiri flugslys hjá sömu tegund

Tvö banvæn flugslys hafa orðið í Rússlandi fyrr á þessu ári þar sem flugvélar af sömu tegund gjöreyðilögðust.

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu segir að sjö manns hafi verið bjargað úr flaki flugvélarinnar sem hrapaði í morgun. Þau eru öll á spítala og er ástand eins þeirra alvarlegt.

Hin sextán sýna engin lífsmörk og hefur neyðarmálaráðuneyti Rússlands staðfest að 15 þeirra séu látin.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert