Segir að allar greiðslur hafi skilað sér

Viðskiptavinir Vodafone söfnuðu tæplega 7 milljónum króna.
Viðskiptavinir Vodafone söfnuðu tæplega 7 milljónum króna. Ljósmynd/Aðsend

Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri sölu-, þjón­ustu- og markaðsmá­la hjá Voda­fo­ne, segir að allar millifærslur viðskiptavina hafi skilað sér á styrktartónleikunum Vaknaðu! sem voru haldnir fyrr í vikunni.

Tveir skipuleggjenda tónleikanna sögðu í samtali við Morgunblaðið að skilaboðakerfi Vodafone hefði hrunið vegna álags um kvöldið. 

Haft er eftir Sesselíu í tilkynningu frá Vodafone að viðskiptavinir hafi safnað tæplega 7 milljónum króna og að söfnunarkerfið hafi verið virkt allan tímann meðan á útsendingu stóð.

„Vodafone var sönn ánægja að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni með skipuleggjendum tónleikanna. Viðskiptavinir Vodafone söfnuðu nærri 7 milljónum króna til styrktar verkefninu. Umræða hefur verið á fréttamiðlum um að söfnunarkerfi Vodafone hafi ekki virkað og því hafi ekki allir viðskiptavinir geta styrkt málstaðinn,“ er haft eftir Sesselíu í tilkynningunni.

„Við viljum koma þeirri leiðréttingu á framfæri að söfnunarkerfið var virkt allan tímann meðan á útsendingu tónleikanna stóð og öll söfnunin skilaði sér. Kerfið tók ekki við söfnun eftir aðfaranótt 31. maí, en þá var söfnunarkvöldi lokið. Vodafone leggur áherslu á að taka þátt í mikilvægum samfélagslegum verkefnum sem þessum og gefur alla vinnu er tengist verkefninu og notkun á kerfum við söfnunina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert