Albert lagði upp í útisigri

Albert Guðmundsson í leik með Genoa.
Albert Guðmundsson í leik með Genoa. Ljósmynd/Skjáskot Twitter Sportlive

Albert Guðmundsson lagði upp fyrra mark Genoa í góðum útisigri á Benevento, 1:2, í ítölsku B-deildinni í fótbolta í dag.

Markið lagði Albert upp á Massimo Coda á 12. mínútu leiksins. Andrés Tello jafnaði fyrir heimamenn snemma í seinni hálfleik en það var svo George Puscas sem skoraði sigurmark Genoa, flautumark þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Alberti var skipt af leikvelli á 64. mínútu leiksins. Hann er með þrjú mörk og tvær stoðsendingar það sem af er leiktíðinni í ítölsku B-deildinni að loknum 19 leikjum.

Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði Pisa sem gerði jafntefli við Como á útivelli í sömu deild, 2:2. Hjörtur lék allan leikinn í hjarta varnarinnar og nældi sér í gult spjald snemma leiks.

Genoa er í 3. sæti ítölsku B-deildarinnar með 39 stig, þremur stigum á eftir Frosinone á toppnum. Pisa er í 6. sæti með 30 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert