Vanir að vera í svona leikjum

Chaz Williams úr Njarðvík og Kristinn Pálsson hjá Val eigast …
Chaz Williams úr Njarðvík og Kristinn Pálsson hjá Val eigast við í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valsmenn eru einum sigri frá því að komast í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfubolta eftir nauman 68:67 sigur á Njarðvík í kvöld. Liðin mætast aftur á laugardaginn og þá geta Valsmenn tryggt sér farseðilinn í úrslitaeinvígið gegn annað hvort Keflavík eða Grindavík.

Kristófer Acox fyrirliði Vals var ánægður með að vera kominn yfir í einvíginu. Við ræddum við Kristófer strax eftir leik:

Það er lítið skorað í þessum leik og síðasta leik. Er lágt stigaskor lykillinn að því að vinna Njarðvík í þessu einvígi?

„Já varnarleikurinn er okkar aðalsmerki í vetur og síðustu ár. Við vitum að ef við erum tengdir varnarlega þá eigum við alltaf séns. Auðvitað hefðum við viljað skora meira, sérstaklega í fjórða leikhluta, en á meðan þeir voru ekki að skora þá var þetta í lagi. Bæði lið voru mjög þreytt eftir að hafa spilað mikla og góða vörn. Þetta hefði getað dottið báðum megin en sem betur fer datt þetta okkar megin."

Höfðuð þið engar áhyggjur af því Njarðvík myndi stela þessu á þeim tímapunkti sem Valur var ekki að ná að setja niður körfur?

„Jú þeir settu 5 stig í röð og náðu að taka litla forskotið sem við vorum búnir að byggja upp. Við erum vanir að vera í svona leikjum þar sem munurinn er lítill og erum yfirleitt sigurvegararnir þegar það er jafnt í lokin. Okkur leið alltaf vel með síðustu mínúturnar."

Ef við berum saman þennan leik og fyrsta leikinn sem Njarðvík vann. Í hverju felst munurinn á ykkar leik?

„Varnarleikurinn. Við gáfum þeim 105 stig í fyrsta leik og höldum þeim undir 70 stigum tvo leiki í röð. Við skorum yfir 80 stig í fyrsta leik sem á að duga til að vinna körfuboltaleik en ef þú spilar ekki vörn þá skiptir það ekki máli. Við erum búnir að tengja okkur varnarlega núna og þurfum að mæta með þessa sömu vörn á laugardaginn og klára þetta einvígi."

Þannig að lykillinn að því að vinna Njarðvík er að spila þétta vörn?

„Já bara spila okkar vörn og ef við vitum að ef við gerum það þá fáum við sjálfstraust í sókninni og náum að keyra á þessum hraðaupphlaupum sem gefa okkur stig. Við vitum að liðum líður ekki vel að spila á móti okkur þegar við erum vel tengdir varnarlega. Núna snýst þetta bara um að halda haus.

Bæði lið eru þreytt og það er gott að vera búnir að slíta sig smá frá þeim og vita að við eigum þennan leik inni en auðvitað vonum við að við þurfum hann ekki. En planið er að spila sömu vörn á laugardag og koma okkur úrslitaeinvígið," sagði Kristófer í samtali við mbl.is  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert