Gefa tilslakanir til kynna

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lögðu minnisblað fram …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lögðu minnisblað fram á ríkisstjórnarfundi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Bólusett fólk mun smitast af kórónaveirunni, það mun smita aðra og munu smitin valda veikindum hjá einhverjum hluta smitaðra, og alvarlegum veikindum hjá sumum,“ segir í minnisblaði forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra sem lagt var fram á ríkisstjórnarfundi í gær.

Í minnisblaðinu er gefið sterklega til kynna að vilji standi til að slaka enn frekar á takmörkunum innanlands og er staðan í faraldrinum, árangur aðgerða og bólusetninga, horfur í faraldrinum og styrking heilbrigðiskerfisins rakin og með því færð rök fyrir möguleika á tilslökunum. 

Núverandi sóttvarnaaðgerðir eru í gildi til og með 20. október. 

Í minnisblaðinu segir að nú þegar þegar ljóst er að dreifing smita mun halda áfram þrátt fyrir bólusetningu, en þó með mun vægari afleiðingum heldur en í óbólusettu samfélagi, hefur mat á áhættu breyst.

„Verndun almennra lífsgæða landsmanna, til lengri tíma, þar á meðal eðlilegs skóla- og frístundastarfs, menningarlegrar og efnahagslegrar virkni, vegur því þyngra en áður.“

Litið er til þess að önnur Norðurlönd hafi aflétt meira eða minna öllum innanlandstakmörkunum og að viðnámsþróttur heilbrigðiskerfisins hafi verið aukinn til muna. 

Í niðurlagi minnisblaðsins segir svo að heilbrigðisráðherra hyggist á næstu dögum ræða við sóttvarnalækni um næstu skref í sóttvarna­ráðstöfunum innanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert