„Hörmum að þessi staða þurfi að koma upp“

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur á siglingu. Varaafl sér Eyjamönnum nú fyrir raforku …
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur á siglingu. Varaafl sér Eyjamönnum nú fyrir raforku á meðan „umfangsmikil, flókin og tímafrek viðgerð“ fer fram á sæstrengnum. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það næsta sem gerist er að við skoðum strenginn, það verður að öllum líkindum gert með aðstoð dvergkafbáts,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, í samtali við mbl.is um þá bilun sem upp er komin í Vestmannaeyjastreng 3 með þeim afleiðingum að Vestmannaeyjastrengur 1 mun ásamt varaafli sjá Eyjamönnum fyrir rafmagni í kjölfar bilunarinnar.

Bilanagreining á strengnum hefur leitt í ljós að bilunin er ekki á landi, svo sem talið var í fyrstu, heldur í sjó, um einn kílómetra frá Landeyjasandi.

Kveður Steinunn skýrari mynd fást af því sem bjátar á þegar skoðunin hefur farið fram, „en eins og staðan er í augnablikinu vitum við lítið um hvað kom fyrir strenginn“, heldur Steinunn áfram og rifjar upp bilun í þessum sama streng árið 2017.

„Það var að vori til og tók töluverðan tíma,“ segir upplýsingafulltrúinn en það var 5. apríl 2017 sem strengurinn bilaði. Undirbúningur aðgerða á þeim tíma var flókinn og umfangsmikill, sérhæft viðgerðaskip kom til landsins 3. júní og vann að viðgerð strengsins í hálfan mánuð, fram til 17. júní. Fengu Vestmannaeyjar rafmagn með varaafli þann tíma.

„Núna erum við að ræða við okkar sérfræðinga og birgja erlendis um hvað sé næsta skref,“ segir Steinunn, en bilun í jarð- og sæstrengjum hafi eðlilega í för með sér meira umstang en þegar um loftlínur sé að ræða.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir skýrari mynd fást af stöðu …
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir skýrari mynd fást af stöðu mála þegar strengurinn hefur verið skoðaður með aðstoð fjarstýrðs kafbáts. Ljósmynd/Landsnet

Þegar bilunin kom upp 2017 var hún rakin til veikleika í einangrun strengsins og var sá hluti hans sem um var að ræða sendur rannsóknarstofu EA Technology á Englandi til greiningar eins og Landsnet gerði grein fyrir á sínum tíma á vefsíðu sinni. Ekki reyndist þó unnt að kveða upp úr með hver raunveruleg orsök bilunarinnar var vegna brunaskemmda á bútnum sem raktar voru til skammhlaupsins sem varð við bilunina. Helst var talið að bilunina mætti tengja magni óæskilegra agna í einangrun strengsins.

Steinunn bendir á að bilunin sem nú er komin upp sé töluvert nær landi og sjór því mun grynnri en þar sem fyrri bilun kom upp, sú var á um 50 metra dýpi þrjá kílómetra frá Heimaey og átti viðgerðaskipið því auðvelt með að athafna sig á svæðinu. Erfiðara gæti reynst um vik núna vegna grynninga en að sögn Steinunnar verður það að koma í ljós er fram í sækir.

„Það er klárt að þetta verður flókin og tímafrek aðgerð,“ segir upplýsingafulltrúinn að lokum.

Loðnuvertíð að hefjast

„Þessi bilun er mjög alvarleg eins og fram hefur komið,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, við mbl.is, „loðnuvertíðin er að hefjast og Vestmannaeyjar eru keyrðar á varaafli núna, það þarf að tryggja að samfélagið gangi.“

Kveður bæjarstjórinn Landsnet hafa lofað því að tryggja það síðasttalda og útvega næga raforku með varaafli fyrir forgangsorku. „En við hörmum það að þessi staða þurfi að koma upp, það á að vera fleiri en ein leið til að flytja rafmagn um sæstreng til Vestmannaeyja,“ segir Íris Róbertsdóttir sem var á leið á fund en nánar verður rætt við bæjarstjórann hér á mbl.is í kvöld.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, kveður málið alvarlegt, loðnuvertíð sé …
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, kveður málið alvarlegt, loðnuvertíð sé í vændum og hún harmi að þessi staða þurfi að koma upp.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert