Kristín Skjaldardóttir, löggiltur fasteignasali, hefur hafið störf fyrir fjártæknifyrirtækið Procura Home ehf. sem rekur fjártækni- og fasteignavefinn procura.is. Greint er frá ráðningu hennar í fréttatilkynningu.

Kristín hefur unnið við fasteignasölu frá árinu 2007 og mun hún sem fasteignasali þjónusta ört stækkandi notendahóp Procura og bjóða upp á þjónustu til bæði kaupenda og seljenda.

„Ég hlakka til að takast á við þær áskoranir að breyta svolítið þjónustu við fasteignaviðskipti. Við ætlum að viðhalda háu þjónustustigi en bjóða samt fasta söluþóknun. Einnig bjóðum við nýja kaupendaþjónustu óháða því hjá hvaða fasteignasölu eign er keypt. Þar bjóðum við kaupendum aðstoð í samningaferlinu, t.a.m. við tilboðsgerð og sitjum einnig með þeim kaupsamninga og fylgjum eftir ferlinu allt þar til afsali er þinglýst,“ er haft eftir Kristínu í fréttatilkynningu.

Þar segir jafnframt að samhliða samningi við Kristínu geti Procura nú boðið notendum procura.is upp á heildarþjónustu vegna kaupa, sölu og endurfjármögnunar fasteigna. Söluþóknun miðist alltaf við fasta krónutölu, kr. 595.000, sem sé veruleg lækkun frá því sem þekkist á markaði í dag. Ekki verði innheimt frekari gjöld vegna söluþóknunar og þá verði engin umsýslugjöld innheimt af kaupendum.

„Við höfum undanfarið unnið að því að skilgreina ferli fasteignaviðskipta og sjáum gríðarleg tækifæri í því að bjóða fasta söluþóknun og viðhalda um leið háu þjónustustigi til notenda og viðskiptavina Procura. Með okkar skilgreiningum og fjártæknilausnum getum við straumlínulagað þessi mikilvægu viðskipti og innleitt betra skipulag. Það mun skila sér í bættri þjónustu við viðskiptavini og skilvirkari samskiptum. Það er því fagnaðarefni að fá Kristínu til samstarfs, en hún hefur mikla reynslu sem löggiltur fasteignasali og deilir sýn okkar á markaðinn og hvernig hann kemur til með að þróast á næstunni," er haft eftir G. Andra Bergmann, framkvæmdastjóra Procura.