Fyrirliðinn farinn frá Leikni

Bjarki Aðalsteinsson í leik með Leikni gegn uppeldisfélagi sínu Breiðablik …
Bjarki Aðalsteinsson í leik með Leikni gegn uppeldisfélagi sínu Breiðablik síðasta sumar. mbl.is/Óttar Geirsson

Knattspyrnumaðurinn Bjarki Aðalsteinsson hefur sagt skilið við Leikni úr Reykjavík eftir sex ára dvöl hjá félaginu.

Bjarki, sem leikur í stöðu miðvarðar, var fyrirliði Leiknis á síðasta tímabili þegar liðið féll úr Bestu deildinni eftir tveggja ára veru.

Hann er alinn upp hjá Breiðabliki en lék með Augnabliki, Reyni úr Sandgerði, Þór frá Akureyri og Selfossi áður en hann gekk til liðs við Leikni árið 2017.

Með Leikni lék Bjarki, sem er 31 árs, 44 leiki í efstu deild og skoraði tvö mörk. Einnig lék hann 76 leiki fyrir liðið í næstefstu deild.

Alls á hann 176 leiki að baki í efstu fjórum deildum Íslands, þar sem Bjarki hefur skorað fjögur mörk.

Samningur hans við Breiðholtsfélagið rann út í lok síðasta árs og í tilkynningu Leiknis um brottför Bjarka kemur ekki fram hvert hann muni halda næst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert