Betur settir gefi meira til samfélagsins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra er opinn fyrir áframhaldandi samstarfi með Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn eftir kosningar að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Þetta sagði Guðmundur í beinni útsendingu á facebooksíðu Vinstri-grænna í gær.

„Ég sé fyrir mér samstarf, ef við komumst í þá stöðu hjá VG að fara í ríkisstjórn, þar sem við komum okkar áherslumálum um umhverfis- og náttúruvernd, um öflugt opinbert heilbrigðiskerfi, mannréttindamál, kerfi þar sem við erum að horfa til þess að jafna byrðarnar í samfélaginu og þar sem þau sem hafa meira á milli handanna gefi meira til samfélagsins.

Þannig ríkisstjórn vil ég. Ef þessir tveir flokkar eru til í að koma inn í þannig samstarf þá er ég opinn fyrir því,“ sagði Guðmundur spurður að því hvort hann sæi fyrir sér áframhaldandi samstarf með núverandi samstarfsflokkum Vinstrihreyfingarinnar í ríkisstjórn.

Finnst ekki gaman að dansa

Spurningarnar sem Guðmundur svaraði voru bæði á pólitískum nótum sem og persónulegum en hann átti auðsjáanlega auðveldara með að svara þeim sem sneru að stefnu hans og flokksins.

Hann var til að mynda beðinn að gefa tóndæmi af uppáhaldslaginu sínu og spurður hvort hann fylgdist með fótbolta. Hann var ekki alveg tilbúinn í þau verkefni en ákvað að vera heiðarlegur um það hvort honum þætti gaman að dansa.

„Þar sem ég er einhleypur þá vil ég geta sagt að mér finnist mjög gaman að dansa. En mér finnst ekkert rosalega gaman að dansa, ef ég á að vera alveg ofboðslega heiðarlegur við ykkur. En ég er alveg tilbúinn til þess að læra það,“ útskýrði ráðherra.

Höfum snúið við blaðinu í loftslagsmálum

Þá útskýrði hann hvers vegna friðlýsingar skiptu máli og hvort eitthvað væri að gerast í loftslagsmálum.

„Við höfum snúið við blaðinu í loftslagsmálum á þessu kjörtímabili. Þegar ég kem í ráðuneytið var engin áætlun um það hvernig við ætluðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hún er komin og hún er fjármögnuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert