Talíbanar fagna áformum Bandaríkjanna

Afganskur lögreglumaður stendur vörð um virki sem sett hefur verið …
Afganskur lögreglumaður stendur vörð um virki sem sett hefur verið upp til að verjast Talíbönum í Kandahar-héraði. AFP

Talíbanar segjast fagna tilkynningu bandarískra stjórnvalda um að tvö þúsund bandarískir hermenn verði brátt kallaðir á brott úr Afganistan. Í því felist „gott skref“ sem muni hjálpa til við að binda enda á langvinn átök í landinu.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í gær að hermannafjöldi þeirra í Afganistan og Írak yrði skorinn niður enn frekar. Ef af því verður þá mun fjöldinn verða sá minnsti frá því stríðið þar hófst fyrir tæpum tuttugu árum.

„Þetta er gott skref og til hagsbóta fyrir fólkið í báðum löndum,“ segir talsmaður Talíbana, Zabihullah Mujahid, í samtali við AFP og á þar við Bandaríkin og Afganistan.

„Því fyrr sem erlenda herliðið fer, þeim mun meira verður komið í veg fyrir stríðið,“ segir hann.

Gert er ráð fyrir að bandarísku hermennirnir yfirgefi landið fyrir …
Gert er ráð fyrir að bandarísku hermennirnir yfirgefi landið fyrir 15. janúar. AFP

Í samræmi við vilja forsetans

Samkvæmt áætlun varnarmálaráðuneytisins á flutningi tvö þúsund hermanna burt úr Afganistan að verða lokið fyrir 15. janúar. Þá verður tæp vika í að Joe Biden taki við embætti forseta.

Brottför hermannanna er í samræmi við yfirlýstan vilja Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að hætta þátttöku bandaríska hersins í átökum í Afganistan.

Talíbanar hafa á sama tíma lofað að þeir muni ekki ráðast á bandarískt herlið og að þeir muni stöðva samtök jíhadista á borð við Al-Kaída og Ríki íslams frá því að starfa í landinu.

Donald Trump heimsótti hermenn í Afganistan á síðasta ári.
Donald Trump heimsótti hermenn í Afganistan á síðasta ári. AFP

Þjóðverjar óttast slæm áhrif

Stjórnvöld Þýskalands, sem halda úti nokkur hundruð hermönnum í norðurhluta Afganistan, segjast óttast að ört undanhald Bandaríkjanna geti haft slæm áhrif á tilraunir til að koma á friði í landinu.

„Við höfum sérstakar áhyggjur af því hvað tilkynning Bandaríkjanna geti þýtt fyrir áframhald friðarviðræðna í Afganistan,“ sagði þýski utanríkisráðherrann Heiko Maas í dag. 

„Við ættum ekki að búa til frekari hindranir,“ bætti hann við og benti á að þessi aðgerð Bandaríkjanna myndi gera einmitt það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert