Frakkar lögðu Spánverja og unnu riðilinn

Frakkinn Nedim Remili svífur í gegnum vörn Spánverja í leiknum …
Frakkinn Nedim Remili svífur í gegnum vörn Spánverja í leiknum í Kraká í kvöld. AFP/Janek Skarzynski

Frakkar tryggðu sér í kvöld sigur í fyrsta milliriðli heimsmeistaramóts karla í handknattleik með því að sigra Spánverja í lokaleik riðilsins í Kraká í Póllandi, 28:26.

Leikurinn var hnífjafn allan tímann en franska liðið seig fram úr á síðustu tíu mínútunum og tryggði sér sigurinn.

Nedim Remili, Dika Mem, Kentin Mahe og Thibaut Briet skoruðu fjögur mörk hver fyrir Frakka en Daniel Fernández var markahæstur Spánverja með sjö mörk.

Frakkar fengu þar með fullt hús stiga í riðlinum, tíu stig. Spánverjar fengu átta stig og fylgja þeim í átta liða úrslitin. Slóvenar, sem unnu Svartfellinga 31:23 í dag, fengu sex stig, Pólverjar, sem unnu Írani 26:22 í dag, fengu fjögur stig, Svartfjallaland fékk tvö stig en Íran ekkert.

Frakkar mæta annað hvort Þýskalandi eða Noregi í átta liða úrslitunum, því liði sem bíður lægri hlut í viðureign þeirra í lokaumferð milliriðils þrjú annað kvöld. Spánverjar mæta hins vegar liðinu sem vinnur þann riðil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert