Heill heilsu eftir höggið frá Alberti

Kasper Schmeichel var mættur á landsliðsæfingu í dag.
Kasper Schmeichel var mættur á landsliðsæfingu í dag. AFP

Kasper Schmeichel, landsliðsmarkvörður Danmerkur í knattspyrnu, er heill heilsu og byrjaður að æfa á ný eftir að hann fékk þungt höfuðhögg í leiknum gegn Íslandi í Kaupmannahöfn í gærkvöldi.

Schmeichel lenti í árekstri við Albert Guðmundsson undir lok fyrri hálfleiks og fékk fót íslenska sóknarmannsins í höfuðið. Hann var svo tekinn af velli í hálfleik eftir ráðleggingar læknis liðsins.

„Þetta leit út fyrir að vera verra en það var,“ sagði markvörðurinn í viðtali sem danska knattspyrnusambandið birti á heimasíðu sinni í dag en Schmeichel var mættur á landsliðsæfingu í morgun. Hann er því líklegur til að spila gegn Belgíu annað kvöld í úrslitaleik liðanna um efsta sætið í riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert