Kári lék vel í naumu tapi

Kári Jónsson hefur spilað vel fyrir Girona á tímabilinu.
Kári Jónsson hefur spilað vel fyrir Girona á tímabilinu. Ljósmynd/FIBA

Kári Jónsson átti góðan leik fyrir Girona þegar liðið tapaði naumlega, 71:73, fyrir Ourense í spænsku B-deildinni í körfuknattleik í morgun.

Kári lék rétt rúmlega helming leiksins, í 21 mínútu, og skoraði á þeim tíma 12 stig, tók tvö fráköst, gaf eina stoðsendingu og stal einum bolta.

Kári var næststigahæstur Girona-manna og sá þriðji stigahæsti í leiknum, en samherji hans Albert Savila var stigahæstur með 18 stig og Alejandro Majaira Gómez gerði 14 stig fyrir Ourense.

Búið er að skipta spænsku B-deildinni í tvennt og er Girona í efsta sæti fallbaráttuhlutans þegar fimm umferðir eru eftir.

Takist liðinu að halda efsta sætinu nær það áttunda og síðasta umspilssætinu í baráttunni um að komast upp í spænsku 1. deildina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert