Arna Sif skoraði í fyrsta leik

Arna Sif Ásgrímsdóttir byrjar afar vel með Glasgow City.
Arna Sif Ásgrímsdóttir byrjar afar vel með Glasgow City. Ljósmynd/Þórir Tryggva

Arna Sif Ásgrímsdóttir, varnarmaður Þórs/KA sem var lánuð til Skotlandsmeistara Glasgow City um jólin, spilaði loks sinn fyrsta leik fyrir félagið og skoraði þegar liðið vann góðan 3:0 útisigur gegn nágrönnum sínum í Celtic í dag.

Eftir að hafa leitt 1:0 í hálfleik eftir mark Aoife Colvill gerði Glasgow City út um leikinn með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla í síðari hálfleiknum.

Fyrst skoraði Arna Sif á 72. mínútu með kraftmiklum skalla eftir hornspyrnu skosku landsliðskonunnar Hayley Lauder og fimm mínútum síðar skoraði Niamh Farrelly, sem var einnig að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið.

Öruggur 3:0 sigur því niðurstaðan. Glasgow City fer með sigrinum upp í toppsæti skosku úrvalsdeildarinnar, en hinir grannarnir í Rangers eiga þó leik til góða á þær.

Arna Sif gekk til liðs við Glasgow City þegar jólafrí var í skosku úrvalsdeildinni en áttunda umferð deildarinnar átti að hefjast um miðjan janúar. Þeim leikjum var hins vegar frestað vegna kórónuveirufaraldursins og hefur ekkert verið spilað í deildinni síðan um miðjan desember, eða þar til í dag.

Hún mun því ekki ná jafn mörgum leikjum með skosku meisturunum og vonast var til þar sem lánið gildir aðeins fram á vor, en áætlað er að hún mæti aftur til Þórs/KA fyrir átökin í sumar.

Barbára Sól Gísladóttir var ekki í leikmannahópi Celtic í dag en hún var lánuð þangað frá Selfossi um svipað leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert