Tékkarnir jöfnuðu í uppbótartíma í Lundúnum

Thomas Partey í baráttu við Abdallah Sima í leiknum í …
Thomas Partey í baráttu við Abdallah Sima í leiknum í kvöld. AFP

Nicolas Pépé virtist vera að tryggja Arsenal sigur á Slavia Prag í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld þegar hann kom liðinu yfir seint í leiknum. Mario Holes, varnarmaður, Slavia, var þó ekki á því að sætta sig við tap og jafnaði metin á þriðju mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma.

Gestirnir frá Prag byrjuðu leikinn betur og áttu leikmenn Arsenal í erfiðleikum með að skapa sér eitthvað að ráði. Leikmenn Slavia voru á meðan skæðir í skyndisókn.

Þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður tóku heimamenn við sér og hófu að gera almennilega atlögu að marki Slavia. Langsamlega besta færi fyrri hálfleiksins fékk Bukayo Saka eftir tæplega hálftíma leik. Rob Holding átti þá góða stungusendingu inn fyrir á Saka sem var sloppinn aleinn í gegn. Hann fór hins vegar illa að ráði sínu og skaut framhjá markinu í dauðafæri.

Markalaust var því í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleiknum komst Saka í álitlega stöðu rétt fyrir utan vítateig þegar David Zima braut á honum. Willian tók aukaspyrnuna en skot hans small í utanverðri stönginni.

Eftir um klukkutíma leik var Jan Boril, fyrirliði Slavia, sloppinn í gegn vinstra megin eftir frábæra sókn gestanna en Bernd Leno gerði vel í marki Arsenal og varði með löppunum.

Örskömmu síðar, á 62. mínútu, var Oscar Dorley í liði Slavia kærulaus með boltann á miðjunni, Alexandre Lacazette hirti boltann einfaldlega af honum, brunaði fram og virtist vera að koma Arsenal í forystu en gott skot hans endaði í samskeytunum.

Á 76. mínútu fékk Slavia svo dauðafæri. Eftir hættulega sókn hreinsaði Cédric Soares út í teiginn á Petr Sevcik  en skot hans úr kjörstöðu framhjá markinu.

Mínútu síðar kom Pierre-Emerick Aubameyang inn á sem varamaður og fyrsta snerting hans í leiknum var skot framhjá af örstuttu færi eftir góða fyrirgjöf Emile Smith Rowe.

Aubameyang bætti þó upp fyrir mistökin á 86. mínútu. Hann átti þá frábæra stungusendingu inn fyrir á Pépé, sem kom inn á sem varamaður á sama tíma og hann, Pépé kom sér í góða stöðu í teignum og kláraði glæsilega með því að vippa yfir Ondrej Kolár í marki Slavia, 1:0.

Loksins var komið mark í þennan fjöruga leik en þrátt fyrir þetta áfall gáfust Tékkarnir ekki upp.

Á þriðju mínútu í uppbótartíma fékk Slavia hornspyrnu. Lukas Provod tók hana, boltinn fór af Pépé og kom Holes á ferðinni á fjærstönginni og skallaði boltann að marki þar sem Leno varði skallann upp í þaknetið.

1:1 eftir ótrúlegar lokamínútur og urðu það lokatölur.

Seinni leikur liðanna fer fram í Prag eftir viku, fimmtudaginn 15. apríl.

Nicolas Pépé fagnar marki sínu í kvöld.
Nicolas Pépé fagnar marki sínu í kvöld. AFP
Arsenal 1:1 Slavia Prag opna loka
95. mín. Leik lokið Leiknum lýkur með dramatísku 1:1 jafntefli!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert