Nú er bara að duga eða drepast

Daníel Laxdal, fyrirliði Stjörnunnar, var ósáttur við sína menn í …
Daníel Laxdal, fyrirliði Stjörnunnar, var ósáttur við sína menn í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Daníel Laxdal, fyrirliði Stjörnunnar, var þungur á brún eftir 2:0 ósigur sinna manna á móti Leikni á útivelli í 13. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. „Þetta var bara lélegt frá A til Ö,“ segir Daníel um leik sinna manna í kvöld. 

Hann segir að andleysi hafi einkennt lið Stjörnunnar og að menn hafi haldið að árangur gæti komið af sjálfu sér. „Við sem lið, við þurfum allir að stíga upp, hver og einn einasti og hugsa okkar gang. Annars fer bara illa.“

Daníel segir að Evrópuleikir Stjörnunnar hafi ekki setið í liðinu. „Nei, það er engin afsökun. Við höfum oft spilað með svona stuttu millibili,“ segir Daníel og bætir við að sér hafi þótt liðið taka of langan tíma til að senda boltann og gefa fyrir. Þá hafi skort upp á samskipti innan liðsins og varnarmenn langt frá sínum mönnum þegar Leiknismenn voru að sækja fram og senda fyrirgjafir.

Spurður hvort Stjörnumenn séu farnir að horfa alvarlega á stöðuna í deildinni segir Daníel að það sé stutt á milli liða, hvort sem horft sé upp eða niður töfluna. „Það eina sem við megum ekki gera er að gefast upp, við verðum að halda áfram og reyna að horfa upp á við. Þetta er þéttur pakki og við verðum bara að stíga upp. Það er bara næsti leikur,“ segir Daníel.

Stjörnumenn mæta næst Víkingum, sem unnu sigur á Keflvíkingum í kvöld. Daníel segir að Stjörnumenn séu ákveðnir í að vera betri á móti Víkingum en þeir voru á móti Leikni. „Vikan fer í að undirbúa þennan leik, og það er bara að duga eða drepast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert