Bjarki skoraði tólf – Teitur öflugur

Bjarki Már Elísson fór á kostum í liði Lemgo.
Bjarki Már Elísson fór á kostum í liði Lemgo. mbl.is/Unnur Karen

Bjarki Már Elísson var samur við sig og skoraði 12 mörk þegar lið hans Lemgo þurfti að sætta sig við 31:33 tap á heimavelli gegn Hannover-Burgdorf í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í dag.

Bjarki Már var markahæstur í leiknum en Heiðmar Felixson fagnaði sigri í dag því hann er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í deildinni í dag. Teitur Örn Einarsson átti frábæran leik fyrir Flensburg þegar liðið vann 27:25 á Wetzlar á heimavelli. Teitur Örn skoraði sex mörk og lagði upp önnur þrjú og var næstmarkahæstur í leiknum á eftir samherja sínum Emil Jakobsen.

Magdeburg er áfram óstöðvandi. Í dag vann liðið öruggan 31:26 útisigur gegn Minden. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar fyrir Magdeburg en Ómar Ingi Magnússon lék ekki með liðinu að þessu sinni.

Magdeburg hefur átt ótrúlegt tímabil og er enn með fullt hús stiga á toppi þýsku deildarinnar þegar 12 umferðum er lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert