Tekjur bakvarðarsveita hafi ekki áhrif á námslán

Sumir námsmenn í bakvarðarsveitum hafa þurft að sæta skerðingu á …
Sumir námsmenn í bakvarðarsveitum hafa þurft að sæta skerðingu á námslánum fyrir vinnu sína í veirufaraldrinum. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Tekjur námsmanna sem aflað er með vinnu í bakvarðarsveitum heilbrigðs- og velferðarþjónustu og lögreglunnar koma ekki til frádráttar við útreikning á framfærslu námsmanna skólaárið 2020-2021, óski þeir eftir því. Þetta kemur fram í tilkynningu Menntasjóðs námsmanna (áður LÍN), sem birt var í gær.

Þetta þýðir að námsmenn geta nú starfað fyrir bakvarðarsveitir landsins áhyggjulausir um að námslán þeirra skerðist vegna aukatekna sem starfinu fylgja. Borið hefur á ósætti milli nemenda í heilbrigðisvísindum og Menntasjóðsins vegna námslánaskerðinga á grundvelli aukatekna og hafa einhverjir hætt við að skrá sig í bakvarðarsveitir vegna þessa.

Þá hefur verið ákveðið að námsmenn sem fá greiddan út séreignasparnað á árinu 2020 geta óskað eftir því að hann verði einnig undanþeginn við útreikning á námsláni. Auk þess hefur frítekjumark námsmanna sem sækja um námslán eftir námshlé eða hafa ekki verið á námslánum á síðasta skólaári verið hækkað úr þreföldu í fimmfalt, með það fyrir augum að koma til móts við námsmenn sem koma af vinnumarkaði.

Menntasjóðurinn hefur einnig framlengt umsóknarfrest um námslán fyrir haustönn 2020 til 1. desember. Sækja verður um lækkun tekna við útreikning námslána vegna launa við vinnu í bakvarðarsveit og vegna úttektar á séreignarsparnaði með því að senda tölvupóst á menntasjóður@menntasjóður.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert