Brasilía tapaði sínum fyrstu stigum

Brasilía og Kólumbía sættust á jafnan hlut í kvöld.
Brasilía og Kólumbía sættust á jafnan hlut í kvöld. AFP

Brasilía gerði markalaust jafntefli við Kólumbíu í undankeppni Suður-Ameríku fyrir HM 2022 í kvöld. Brasilíumenn töpuðu þar með sínum fyrstu stigum í undankeppninni.

Leikið var í Kólumbíu í kvöld en sem áður segir auðnaðist hvorugu liðinu að skora.

Brasilía hafði fyrir leikinn unnið alla níu leiki sína í undankeppninni og á því sæti á HM í Katar á næsta ári víst, enda með 28 stig og níu stiga forskot á toppi undanriðilsins.

Argentína er í öðru sæti með 19 stig en getur saxað aðeins á forskotið með sigri gegn nágrönnum sínum í Úrúgvæ í nótt.

Fyrr í dag vann Bólivía góðan 1:0 heimasigur gegn Perú í riðlinum þar sem Ramiro Vaca skoraði sigurmarkið seint í leiknum þrátt fyrir að nafni hans Henry Vaca, sem er þó ekki skyldur Ramiro, hafi fengið beint rautt spjald skömmu áður.

Botnlið Venesúela vann þá óvæntan 2:1 sigur gegn Ekvador sem hefur staðið sig vel í undankeppninni og er í þriðja sæti riðilsins.

Enner Valencia kom gestunum í Ekvador yfir með marki úr vítaspyrnu á 37. mínútu áður en Darwin Machís jafnaði metin fyrir Venesúela í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Eduard Bello skoraði svo sigurmarkið fyrir heimamenn þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert