Aldrei fór ég suður haldin

Aldrei fór ég suður árið 2019.
Aldrei fór ég suður árið 2019. Ljósmynd/Ásgeir Helgi

Skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður eru í „geggjuðum fíling“ að sögn Arnar Elíasar Guðmundssonar, eins þeirra, betur þekkts sem Mugison.

Stefnt er á tveggja daga hátíð um páskahelgina 2. og 3. apríl á Ísafirði, að sögn Mugison. Hann vonast eftir lifandi hátíð, þó að enn sé ekki ljóst hve mörgum verði öruggt að stefna saman á þessum tímapunkti. Farið verði að tilmælum yfirvalda í þeim efnum.

Mugison var fyrstur á svið þegar Aldrei fór ég suður …
Mugison var fyrstur á svið þegar Aldrei fór ég suður var sett í gang árið 2013, en hátíðin er fyrir löngu orðin ein sú vinsælasta hér á landi. Ljósmynd/ Halldór Sveinbjörnsson

Í fyrra var heimsfaraldur nýskollinn á þegar hátíðin var haldin í byrjun apríl. Tónlistarmennirnir sungu til áhorfenda að heiman og myndskeiðum var skellt saman í eina heild. 

Enda þótt Mugison telji að hátíðin verði að einhverju leyti rafræn í ár, sér hann fram á að gestir geti komið á hátíðina. „En þar þurfum við að sjá til hvernig aðstæður verða, hvort það megi vera 20 manns eða 200 manns, það veltur á því hvernig fyrirkomulagið verður,“ segir hann.

Nákvæm staðsetning liggur ekki fyrir en miðað er við að halda hátíðina í sal á Ísafirði, þaðan sem henni verður einnig streymt á RÚV. Tónlistarmennirnir sem stíga á svið verða kynntir fljótlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert