Matarpakkar yfirvalda „skelfilegir“

Boris Johnsson.
Boris Johnsson. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að skólamáltíðir í boði breskra stjórnvalda, sem knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford vakti athygli á að væru óviðundandi, væru „móðgandi“.

Johnson hét því að ríkisstjórn Breta myndi „gera allt sem við getum til að tryggja að ekkert barn verði svangt“ á meðan á útgöngubanni stendur í landinu. 

Rashford, sem hefur verið ötull baráttumaður fyrir fríum skólamáltíðum síðan á síðasta ári, spilaði enn á ný lykilhlutverk í að setja þrýsting á yfirvöld eftir að hafa deilt ljósmyndum af heldur fátæklegum skólamáltíðum yfirvalda. Ákall knattspyrnumannsins varð til þess að máltíðarnar voru til umræðu á breska þinginu í dag. 

Marcus Rashford.
Marcus Rashford. AFP

„Ég held ekki að nokkur á þessu þingi sé ánægður með þessar óforsvaranlegu myndir sem við höfum séð af þeim matarpökkum sem boðið hefur verið upp á,“ sagði Johnson. „Þeir (matarpakkarnir) eru skelfilegir. Þeir eru móðgun við þær fjölskyldur sem hafa fengið þá.“

Skólum á Bretlandi hefur á ný verið lokað eftir að útgöngubann var sett á þar í landi. Fjölskyldum þeirra barna, sem alla jafna er boðið upp á máltíð í skólanum vegna fjárhagsstöðu, hefur verið boðið að þiggja máltíðir áfram heim til sín. 

Rashford, sem fékk síðasta vetur MBE-orðu breska ríkisins frá Elísabetu Bretlandsdrottningu fyrir baráttu sína í þágu fátækra barna, vakti fyrst athygli á fátæklegum máltíðum í boði stjórnvalda á Twitter. Hann sagði fyrr í dag að hann hafi átt gott samtal við Johnson um stöðuna. 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert