Aðstoðarmaður borgarstjóra til Veitna

Pétur Krogh Ólafsson.
Pétur Krogh Ólafsson. Ljósmynd/Veitur

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, þarf nú væntanlega að svipast um eftir nýjum aðstoðarmanni því aðstoðarmaður borgarstjóra, Pétur Krogh Ólafsson, hefur ráðið sig til Veitna. 

Pétur mun gegna starfi þróunar- og viðskiptastjóra Veitna. Hann kemur til með að sjá m.a. um samskipti og samhæfingu áætlana milli sveitarfélaga og Veitna og heyra beint undir framkvæmdastýru fyrirtækisins, segir í tilkynningunni. 

Pétur er með BA-gráðu í sagnfræði og MA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hefur hann einnig starfað hjá Símanum og verið bæjarfulltrúi í Kópavogi. 

Veitur er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur sem kunnugt er og til húsa í Bæjarhálsi eins og OR. Pétur hefur verið aðstoðarmaður borgarstjóra frá árinu 2014. 

Þetta er ekki fyrsta ráðning samstæðu Orkuveitunnar í samskiptamálum upp á síðkastið. Í október var Rún Ingvars­dótt­ir ráðin í teymi sér­fræðinga sam­skipta- og sam­fé­lags. Þá staðfesti Breki Logason, stjórnandi á sviðinu, að samtals væru sjö, að honum meðtöldum, á sviðinu.

Veitur er stærsta veitufyrirtæki landsins með fjölbreytta starfsemi. Hlutverk Veitna er að þróa og byggja upp veitukerfi og gæta þess að viðskiptavinir hafi aðgengi að hitaveitu, rafveitu, vatnsveitu og fráveitu.

Veitur þjónusta aðallega höfuðborgarsvæðið, en einnig aðra staði, víða á Suður- og Vesturlandi. Lagnir og strengir eru alls 9.000 km að lengd, sem samsvarar vegalengdinni frá Reykjavík til Shanghai. Veitur þjónusta ríflega 70% landsmanna á einn eða annan hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert