Sameinast undir merkjum Blaðamannafélags Íslands

Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir og Sigríður Hagalín Björnsdóttir. Samsett mynd

Félagar í Blaðamannafélagi Íslands og félagar í Félagi fréttamanna, stéttarfélagi fréttamanna á Ríkisútvarpinu, hafa samþykkt að sameina félögin undir merkjum Blaðamannafélags Íslands.

Sameiningin var samþykkt á aðalfundi Blaðamannafélags Íslands 28. apríl og á aðalfundi Félags fréttamanna í gærkvöld. Hún tekur gildi 1. júní og verður stétt blaða- og fréttamanna á Íslandi þá sameinuð í einu félagi, að því er segir í sameiginlegri tilkynningu frá stjórn BÍ og FF.

Sótt að faglegri blaðamennsku

„Á undanförnum árum hefur verið sótt að faglegri blaða- og fréttamennsku á Íslandi í síauknum mæli,“ er haft eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, formanni Félags fréttamanna.

„Blaða- og fréttamenn þurfa að þétta raðirnar og standa saman gegn þeim ógnum sem steðja að stéttinni. Með sameiningu Félags fréttamanna og Blaðamannafélags Íslands verða til öflug heildarsamtök blaða- og fréttamanna á Íslandi, sem tala máli okkar allra og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum og bættum starfskjörum stéttarinnar,“ segir hún ennfremur.

Hið sameinaða félag verður bæði stéttarfélag og fagfélag.

Sendi sterk skilaboð

„Sameining stéttarinnar í eitt öflugt fag- og stéttarfélag sendir sterk skilaboð út í samfélagið um mikilvægi faglegrar blaðamennsku á tímum þar sem sótt er að blaðamennsku og fjölmiðlum, hér sem annars staðar,“ er haft eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formanni Blaðamannafélags Íslands.

„Framundan eru stór verkefni á miklum umbreytingatímum. Mikilvægt er að blaðamenn snúi bökum saman til að styrkja stoðir blaðamennsku og berjast fyrir hagsmunum stéttarinnar. Öflugt, sameinað félag blaðamanna verður mikilvægur vettvangur fyrir faglegt starf og mun stuðla að því að skapa grundvöll fyrir sterka, sjálfstæða fjölmiðla í rekstrarumhverfi sem er meira krefjandi en nokkru sinni.“

Félag fréttamanna hefur til þessa verið aðildarfélag Bandalags háskólamanna. Eftir sameininguna verður félagið starfrækt áfram sem deild í Blaðamannafélaginu. „Við þökkum Bandalagi háskólamanna fyrir góða og ánægjulega samfylgd, frábæra þjónustu og alla þá aðstoð og skilning sem það hefur sýnt okkur í sameiningarferlinu við Blaðamannafélag Íslands,“ er haft eftir Sigríði Hagalín.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert