Birgðastaða á andlitsgrímum misgóð

Farþegar um borð í Herjólfi með andlitsgrímur. Birgðastaða andlitsgríma er …
Farþegar um borð í Herjólfi með andlitsgrímur. Birgðastaða andlitsgríma er misjöfn milli verslana. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Víða hafa andlitsgrímur selst upp í verslunum landsins í kjölfar tilskipunar heilbrigðisráðherra að bera ætti andlitsgrímu þar sem ekki væri unnt að virða tveggja metra reglu. Tilskipunin tók gildi seinasta föstudag og segja verslunareigendur að grímurnar hafi rokselst um helgina og í byrjun þessarar viku. Birgðastjóri Tandurs segir að birgjar hafi hækkað verð vegna eftirspurnar. Erfitt sé að fá sendingar af andlitsgrímum og verslanir klári það litla sem þær fái á skömmum tíma. 

„Við fengum sendingu hér fyrir helgi sem kláraðist bara strax. Tandur selur bara til fyrirtækja en ekki einstaklinga, þrátt fyrir það höfum við þurft að reyna að ráðstafa grímunum þannig að allir okkar viðskiptavinir fái eitthvað,“ segir Bjarni Magnússon, innkaupa- og birgðastjóri Tandurs, í samtali við mbl.is. Jafnframt segir hann að það hafi borið á því að birgjar hækki verð vegna eftirspurnar og þess vegna hafi Tandur ekki stokkið til strax við að kaupa grímur.

Segja stöðuna góða

Á öðru máli er Einar Hrafn Jónsson, verkefnastjóri birgða hjá verslunum Lyfju. Hann segir stöðuna góða. Grímurnar rokseljist en það sé nóg til. „Ég veit hreinlega ekki hvort birgjar hafi verið að hækka verð en við höfum sjálf ekkert gripið til verðhækkana,“ segir Einar í samtali við mbl.is. Einar segist ekki vita til þess að fólk sé að hamstra grímur í verslunum Lyfju.

Guðmundur E. Sæmundsson, sölustjóri Rekstrarlands, segir verslunina ekki hafa verið mikið í grímusölu undanfarið. Hann hafi þó pantað grímur á síðustu dögum sem eru væntanlegar. Aðspurður um verðhækkanir á grímum segir hann Rekstrarland og birgja þeirra ekki stunda tækifærismennsku. „Við erum með trausta birgja sem við höfum verslað við í áratugi. Þeir fara ekkert að leika þann leik að hækka verð núna,“ en Rekstarland selur mikið af heilbrigðis- og hreingerningarvörum til heilbrigðisstofnana.

Daði Örn Jensson hjá innkaupadeild Würth á Íslandi segir í samtali við mbl.is að verslunin hafi fengið sendingu á 50.000 andlitsgrímum í gær. Hann segist ekki ætla að hækka verð þrátt fyrir eftirspurn.

Fyrrnefnd tilskipun heilbrigðisráðherra nær aðallega til almenningssamgangna. Vari ferð í flugvél, ferju, strætisvögnum og rútum lengur en þrjátíu mínútur verði fólk að setja upp grímu. Breytingarnar tóku gildi 31. júlí og gilda til 13. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert