Búast má við að fólk veikist alvarlega

Enn má búast við því að fólk geti veikst alvarlega …
Enn má búast við því að fólk geti veikst alvarlega af völdum kórónuveirunnar hér á landi, þrátt fyrir gott gengi í bólusetningum. mbl.is/Jón Pétur

Tilfinning Runólfs Pálssonar, yfirlæknis á Covid-göngudeild Landspítala, er ekki góð vegna þeirrar stefnu sem faraldur kórónuveiru hefur tekið hér á landi. 

Enn einu sinni fjölgar smitum innanlands þegar flestir töldu eflaust að slíkt ætti ekki að geta gerst vegna góðs gengis í bólusetningum.

Runólfur segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort einhverjir veikist alvarlega. Nú eru 223 í eftirliti göngudeildar, þar af um 100 undir þrítugu og 14 undir 18 ára aldri með virk smit. Í þeim hópi eru langflestir grænir, einn gulur og einn rauður.

Grænir eru þeir sem eru með væg eða lítil einkenni Covid-19, gulir eru þeir sem eru með aukin og svæsnari einkenni og rauðir eru þeir sem eru með mjög mikil einkenni, veruleg andþyngsli og mikinn hita t.a.m. Ef viðkomandi er svo lagður inn á sjúkrahús fellur hann úr litakóðun göngudeildar enda komin út fyrir þau mörk sem kerfið nær til. 

Mönnun göngudeildarinnar segir Runólfur að sé ein stærsta áskorunin.

Í gær greindust 56 smit innanlands og þar af voru 38 ekki í sóttkví. Einn liggur á sjúkrahúsi með veiruna, fullbólusettur. Til skoðunar er hjá sóttvarnayfirvöldum að leggja til aðgerðir innanlands til þess að hefta útbreiðsluna. 

„Mönnunin er vandamál og við erum að glíma við það og finnum alltaf einhverjar leiðir, en það þýðir álag,“ segir Runólfur yfirlæknir við mbl.is.

„En það hjálpar okkur að veikindin hafa verið það sem við köllum væg. Það hefur ekki verið mikil þörf á inngripum af okkar hálfu. Við höfum í nokkur skipti verið að gefa vökva og svona á göngudeildinni til stuðnings, en það er lítið af því það sem af er.“

Runólfur Pálsson, yfirlæknir Covid-göngudeildar.
Runólfur Pálsson, yfirlæknir Covid-göngudeildar. mbl.is

Búast við því að fólk veikist alvarlega

Runólfur segir einnig að það valdi áhyggjum hvað útbreiðsla veirunnar er hröð, margir greinast á degi hverjum og þar af margir utan sóttkvíar. Enn fremur segir hann að búast megi við að fólk veikist alvarlega hér á landi, þrátt fyrir gott gengi í bólusetningum, það sýni reynslan erlendis.

„Það er náttúrlega fyrst og fremst vegna þess hve útbreiðslan er ör. Við sjáum að það eru alls ekki margir sem greinast í sóttkví, þorri þeirra sem greindust síðasta sólarhring var ekki í sóttkví. Og svo ef við horfum á reynsluna erlendis, jafnvel í löndum þar sem bólusetningahlutfall er nokkuð hátt, að þá hefur verið talsvert um alvarleg veikindi, jafnvel hjá bólusettum einstaklingum.

Bóluefnin veita vernd gagnvart alvarlegum veikindum, það er enginn vafi á því, en ef við gefum okkur að kannski 90% einstaklinga séu vel varin að þá eru enn 10% sem eru það ekki. Svo þar að auki eru ekki allir bólusettir, þannig að það eru margir sem eiga á hættu að veikjast alvarlega og sérstaklega þeir sem eru með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma, bælt ónæmiskerfi af völdum lyfja eða sjúkdóma og svo háaldraðir einstaklingar sem svara ekki bóluefnum eins og þeir sem eru ungir og hraustir.“

Þannig að þið svona vonið það besta, allavega enn þá, en eruð búin undir það versta?

„Já, ég held að það séu ágætis lokaorð.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert