Valur þurfti tvær framlengingar gegn ÍR

Kári Jónsson og Martin Paasoja í viðureign Vals og ÍR.
Kári Jónsson og Martin Paasoja í viðureign Vals og ÍR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valur endurheimti í kvöld efsta sætið í úrvalsdeild karla í körfuknattleik með afar naumum sigri á ÍR-ingum á Hlíðarenda eftir ótrúlegan leik og tvær framlengingar, 102:97.

Valsmenn eru með 32 stig eins og Njarðvík þegar bæði lið eiga tvo leiki eftir og þau heyja því einvígi um deildarmeistaratitilinn.

ÍR er á barmi falls eftir þessi úrslit en liðið verður að vinna báða sína leiki, og Hött með ellefu stiga mun, til að geta forðað sér frá falli. Höttur þarf jafnframt að tapa sínum leikjum.

Valsmenn voru yfir í hálfleik, 47:40, en náðu aldrei að hrista ÍR-inga af sér og leikurinn var í járnum. ÍR komst svo tíu stigum yfir í fjórða leikhluta en Valsmenn jöfnuðu og komust í 82:79 á lokamínútunni en ÍR knúði fram framlengingu þegar Hákon Örn Hjálmarsson nýtti seinna vítaskot af tveimur, 20 sekúndum fyrir leikslok, og jafnaði, 82:82.

Liðin voru yfir til skiptist í framlengingunni en eftir spennuþrungna lokamínútu jafnaði Martin Paasoja fyrir ÍR tveimur sekúndum fyrir lok hennar, 89:89, og þar með þurfti að framlengja aftur.

ÍR komst í 92:89 en Valsmenn svöruðu því með tíu stigum í röð, 99:92, og þar með voru undirtökin loks þeirra.

Pablo Cesar Bertone var langbestur Valsmanna með 34 stig. Kristófer Acox skoraði 22 og tók 11 fráköst og Callum Lawson skoraði 14.

Martin Paaojsa skoraði 22 stig fyrir ÍR, Collin Pryor skoraði 19 og tók 16 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson skoraði 18 og Taylor Johns var með 14 stig og heil 23 fráköst.

Gangur leiksins: 0:4, 0:15, 5:20, 10:22, 18:27, 26:34, 32:43, 40:47, 44:50, 51:55, 57:55, 60:61, 64:69, 70:74, 75:78, 82:82, 87:87, 89:89, 94:92, 102:97.

Valur: Pablo Cesar Bertone 34/7 fráköst/6 stoðsendingar, Kristófer Acox 22/11 fráköst, Callum Reese Lawson 14/9 fráköst/5 stolnir, Hjálmar Stefánsson 11/15 fráköst, Kári Jónsson 10/8 fráköst/6 stoðsendingar, Ozren Pavlovic 7, Daði Lár Jónsson 4.

Fráköst: 42 í vörn, 10 í sókn.

ÍR: Martin Paasoja 22/7 fráköst/8 stoðsendingar, Collin Anthony Pryor 19/16 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 18, Taylor Maurice Johns 14/23 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 10, Friðrik Leó Curtis 9, Aron Orri Hilmarsson 5.

Fráköst: 42 í vörn, 15 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Gunnlaugur Briem, Sigurbaldur Frímannsson.

Áhorfendur: 107.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert