Viðskipti innlent

Silja Mist fer frá Nóa Síríus til Orku­veitunnar

Eiður Þór Árnason skrifar
Silja Mist Sigurkarlsdóttir, nýráðinn markaðsstjóri ON.
Silja Mist Sigurkarlsdóttir, nýráðinn markaðsstjóri ON. Gunnhildur Lind

Silja Mist Sigurkarlsdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri Orku náttúrunnar og markaðssérfræðingur Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Hún kemur til fyrirtækisins frá Nóa Síríus þar sem hún hefur gegnt stöðu markaðsstjóra síðustu ár.

Silja verður hluti af einingu innan OR sem kallast Samskipti og samfélag sem sér um öll markaðs- og kynningarmál OR samstæðunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en Silja er fædd árið 1991. Hún hóf störf hjá Nóa Síríus árið 2016 eftir að hún lauk námi í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, fyrst sem vöruþróunarstjóri og síðar sem markaðsstjóri. Silja hefur meðfram vinnu sinni sinnt kennslu í markaðsfræðum og vöruþróun við Háskólann í Reykjavík.

Stórar áskoranir í orkuskiptum

Silja telur að reynsla sín hjá Nóa Sírus muni hjálpa sér að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru hjá Orku náttúrunnar.

„Á raforkumarkaði ríkir afar spennandi samkeppnisumhverfi sem ég er spennt að takast á við með umhverfismálin sem ég brenn svo fyrir að leiðarljósi. Það er klárt mál að þegar kemur að orkuskiptunum eru áskoranirnar stórar og ég get ekki beðið eftir því að takast á við þær með því frábæra fólki sem ég veit að starfar hjá Orku náttúrunnar,“ segir Silja í tilkynningu.

„Við hjá Orkuveitu samstæðunni erum afar glöð og ánægð með að fá Silju Mist til liðs við okkur enda hefur hún vakið verðskuldaða athygli fyrir störf sín hjá Nóa Síríus. Silja er með frábæra sýn og nálgun á markaðsmálin sem mun klárlega nýtast okkur í baráttunni í því kvika samkeppnisumhverfi sem raforkumarkaðurinn er,“ segir Breki Logason, stjórnandi Samskipta og samfélags.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×