Erlent

Flugvellinum á La Palma lokað vegna ösku

Samúel Karl Ólason skrifar
Hraunflæði er sagt hafa aukist töluvert á La Palma.
Hraunflæði er sagt hafa aukist töluvert á La Palma. EPA/Miguel Calero

Flugvellinum á La Palma hefur verið lokað vegna eldgossins á eyjunni. Mikil læti hafa verið í eldgosinu sem hófst á sunnudaginn og þykk öskuský leiddu til þess að flugvellinum var lokað.

Minnst 350 heimili hafa eyðilagst í eldgosinu og þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín.

Í frétt BBC segir að flugvöllurinn sé notaður til að ferja ferðamenn til eyjunnar og frá eyjunni til annarra Kanaríeyja. Miklar raðir mynduðust á flugvellinum í dag og reyndu fjölmargir ferðamenn að komast af eyjunni með ferjum.

Virkni hefur aukist í eldgosinu með sprengingum og auknu kvikuflæði frá nýjasta opi eldgossins. Aska frá eldgosinu hefur lagst yfir flugvöllinn og var unnið að hreinsun í dag svo hægt væri að opna hann á nýjan leik.

Samkvæmt spænska miðlinum Diario de Avisos, hafa ný gosop opnast í dag hluti af stærsta gíg eldgossins brotnað. Kvikan, sem er sögð vera heitari og meira fljótandi en áður, hefur runnið rúma þrjá kílómetra niður fjallshlíðina en í dag hefur það farið á um 30 kílómetra hraða á klukkustund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×