Landspítalinn setur fleiri takmarkanir

Landspítali háskólasjúkrahús Í Fossvogi
Landspítali háskólasjúkrahús Í Fossvogi Ómar Óskarsson

Farsóttarnefnd Landspítalans ákvað í dag ásamt framkvæmdastjóra og forstöðumönnum að herða sóttvarnaráðstafanir á Landspítala vegna uppsveiflu faraldursins innanlands.

Einn gestur á dag

Frá og með deginum í dag má einungis einn gestur koma til hvers sjúklings á hverjum degi. Þá er mælst til þess að börn yngri en 12 ára komi ekki í heimsóknir nema í samráði við stjórnendur viðkomandi deilda.

Þá eiga þeir sjúklingar sem koma á deildir í viðtöl, meðferð eða rannsóknir að koma einir nema brýna nauðsyn beri til. Inniliggjandi sjúklingar munu almennt ekki fá leyfi nema það sé hluti af útskriftarundirbúningi eða endurhæfingu.

Starfsmenn sem koma að utan í vinnusóttkví

Í gær tóku ráðstafanir fyrir starfsfólk gildi þess efnis að það þyrfti að sæta tvöfaldri skimun eftir að hafa komið til landsins frá útlöndum með fimm daga vinnusóttkví á milli. Auk þess var sett algjör grímuskylda á allt starfsfólk auk allra þeirra sem eiga erindi á spítalann.

Þá hvetur farsóttarnefnd starfsmenn spítalans til að gæta sín vel „forðist fjölmenn mannamót, skemmtistaði, veislur og viðburði sem hafa oft leitt til mikillar dreifingar smits. Nú er rétti tíminn til að búa til "sumarkúlu" og hafa það notalegt með sínum nánustu,“ segir í tilkynningu spítalans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert