Erlent

Ítalir stöðvuðu sendingu á bóluefni til Ástralíu

Kjartan Kjartansson skrifar
AstraZeneca sótti um að flytja 250.000 skammta af bóluefni sem var framleitt á Ítalíu til Ástralíu. Ríkisstjórnin í Róm hafnaði því.
AstraZeneca sótti um að flytja 250.000 skammta af bóluefni sem var framleitt á Ítalíu til Ástralíu. Ríkisstjórnin í Róm hafnaði því. AP/Virginia Mayo

Stjórnvöld á Ítalíu komi í veg fyrir að 250.000 skammtar af bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni sem voru framleiddir þar í landi yrðu fluttir til Ástralíu. Ákvörðunin nýtur stuðnings framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og byggir á nýjum reglum sem leyfa ríkjum að stöðva útflutning á bóluefni ef framleiðendur þess hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sambandinu.

AstraZeneca virðist aðeins ætla að afhenda um 40% þess bóluefnis sem Evrópusambandið samdi um við fyrirtækið á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það hefur borið fyrir sig vandræði í framleiðslu. Samningur fyrirtækisins við ESB hljóðaði upp 300 milljónir skammta með möguleika á 100 milljónum til viðbótar síðar meir.

ESB hefur sakað AstraZeneca um að heiðra ekki samninginn. Í kjölfarið samþykkti sambandið útflutningshömlur á bóluefni sem skyldar framleiðendur bóluefna til að leita leyfis áður en þau geta afgreitt sendingar til landa utan sambandsins. Ítalía er fyrsta ríkið sem nýtir heimild til þess að stöðva útflutning á bóluefni.

Bólusetningar gegn kórónuveirunni hafa gengið afar hægt fyrir sig í Evrópu og sæti sambandið gagnrýni fyrir það.

Í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni sagði ítalska utanríkisráðuneytið að Ástralía væri ekki á lista yfir „viðkvæm“ ríki, varanlegur skortur á bóluefni væri í Evrópusambandinu og á Ítalíu og að um mikinn fjölda skammta væri að ræða í samanburði við þá skammta sem AstraZeneca hefði afhent sambandinu og Ítalíu til þessa, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Greg Hunt, heilbrigðisráðherra Ástralíu, segir að fyrsta sending á bóluefni sé þegar komin til landsins og hún dugi þar til næsti skammtur frá innlendum framleiðanda verður tilbúinn. Sendingin frá Ítalíu skipti ekki sköpum fyrir bólusetningaráætlun næstu vikna að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir Hunt.

AP-fréttastofan segir að fulltrúar AstraZeneca hafi ekki viljað tjá sig um ákvörðun ítalskra stjórnvalda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×