Sannfærandi hjá meisturunum

LeBron James heldur boltanum frá Zion Williamson í leiknum í …
LeBron James heldur boltanum frá Zion Williamson í leiknum í nótt. AFP

LeBron James skoraði 21 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir meistaralið Los Angeles Lakers sem vann öruggan 112:95-sigur á New Orleans Pelicans og Giannis Antetokounmpo fór fyrir Milwaukee Bucks sem hafði betur gegn Dallas Mavericks, 112:109, en sjö leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Þremur leikjum þurfti að fresta vegna kórónuveirunnar.

Los Angeles hefur nú unnið 11 af 14 leikjum sínum á tímabilinu og er á toppi vesturdeildarinnar en sigurinn í nótt var síst of stór. Anthony Davis skoraði 17 stig og þeir Kentavious Caldwell-Pope og Montrezl Harrell voru báðir með 16 fyrir heimamenn.

Antetokounmpo skoraði 31 stig fyrir Milwaukee gegn Luka Doncic og félögum í Dallas. Hann nýtti reyndar bara eitt af tíu vítaköstum en það kom ekki að sök. Doncic skoraði 28 stig og gaf 13 stoðsendingar fyrir gestina.

Úrslitin í nótt
Boston Celtics - Orlando Magic 124:97
Cleveland Cavaliers - New York Knicks 106:103
Milwaukee Bucks - Dallas Mavericks 112:109
Oklahoma City Thunder - Chicago Bulls (frl.) 127:125
Utah Jazz - Atlanta Hawks 116:92
Los Angeles Lakers - New Orleans Pelicans 112:95
Sacramento Kings - Los Angeles Clippers 100:138

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert