„Hvað verður um mig kemur í ljós fljótlega eftir helgi“ 

Ólafur Jóhannesson ásamt aðstoðarmanni sínum, Davíð Þór Viðarssyni í dag.
Ólafur Jóhannesson ásamt aðstoðarmanni sínum, Davíð Þór Viðarssyni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH-inga í Pepsi Max-deild karla, var mjög kátur eftir leik KA og FH á Akureyri í dag. KA jafnaði leikinn í 2:2 í uppbótatíma en það beit lítið á glaðværðina í Óla Jó. Hinn reynslumikli þjálfari hafði sautján árum fyrr mætt með FH til Akureyrar í lokaumferðinni og tryggt Hafnfirðingum fyrsta Íslandsmeistaratitil þeirra með 2:1 sigri.  

Sæll Ólafur. Ef við stökkvum sautján ár aftur í tímann þá varstu hér á þessum velli að fagna fyrsta Íslandsmeistaratitli FH-inga og leggja gruninn að því stórveldi sem félagið varð í kjölfarið. Nú ertu mættur aftur með sama félag í lokaumferðinni. 

„jú jú. Ég man mjög vel eftir þeim degi.“ 

Þú hefur væntanlega viljað ljúka mótinu í ár eins og þá, með því að leggja KA að velli. Það munaði engu og KA jafnar í uppbótatíma. 

„jú auðvitað. Mér fannst við vera betra liðið svona heilt yfir og frammistaða okkar var fín. Auðvitað hefðum við viljað vinna leikinn en svona er þetta stundum“ sagði Óli og var lítið að æsa sig. 

Það var að litlu að keppa fyrir ykkur. FH hefði alltaf setið áfram í 6. sæti hvernig sem færi. Það var samt að sjá á liði þínu að leikmenn hungraði í enn einn sigur. 

„Allir leikir skipta máli og eru mikilvægir. Til að sýna öðrum liðum og deildinni virðingu þá þarftu að spila leikina eins og maður og við gerðum það. Við vorum ekkert að gefa KA eitt né neitt og spiluðum hörkuleik. Og eins og ég segi þá fannst mér við, heilt yfir, vera betri. 

Það eru margir ungir leikmenn í liðinu hjá þér og þeir hafa fengið stærri hlutverk eftir því sem liðið hefur á mótið. Hvernig fannst þér þeir standa sig í dag? 

„Mér fannst allt liðið standa sig mjög vel. Það er gaman að sjá ungu strákana. Það er staðreynd. En þeir eiga líka margt ólært og þetta gefur þeim heldur betur púst fyrir framhaldið. Ég er bara ánægður með leik þeirra.“ 

Svo er náttúrulega mjög forvitnilegt að fá að vita hver þín staða er? 

„Mín staða hefur alltaf verið góð“ segir Ólafur og brosir breitt. „Hún er það enn þann dag í dag en hvað verður um mig kemur í ljós fljótlega eftir helgi.“ 

Langar þig að halda áfram að móta þetta lið sem þú ert með? 

„Tja það er . . . mig langar nú að gera svo margt en það kemur í ljós hvað ég geri“ sagði Ólafur að lokum og skellti upp úr.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert