Vil helst eyða þeim leik út

Víkingsliðið fagnar marki í dag.
Víkingsliðið fagnar marki í dag. mbl.is/Óttar

Emma Steinsen Jónsdóttir var svekkt þegar hún ræddi við mbl.is eftir 2:2-jafntefli Víkings við Fylki á heimavelli í nýliðaslag í Bestu deildinni í fótbolta í dag.

„Þetta er svekkjandi, ef ég á að segja eins og er. Þetta er leikur sem mér finnst við eiga að vinna. Þetta eru þrjú stig sem við áttum að taka og þetta er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Emma eftir leik og hélt áfram:

„Það vantaði meiri vilja í okkur. Í fyrri hálfleik vildu þær þetta meira. Þær voru mættar í fyrsta og annan bolta, á meðan við vorum seinar. Það batnaði í seinni hálfleik en það vantaði meira.“

Víkingur er með fjögur stig eftir tvær umferðir, en nýliðarnir gerðu góða ferð í Garðabæinn í fyrstu umferð og unnu 2:1.

„Seinni hálfleikurinn á móti Stjörnunni er sá besti hjá okkur hingað til. Við vörðumst mjög vel þá. Í dag vissum við að við yrðum meira með boltann. Það er öðruvísi að vera litla liðið, en í dag vorum við á móti öðru litlu liði og þá var þetta töluvert erfiðara.“

Emma var að leika sinn þriðja leik í efstu deild í dag. Hún er því óreynd í efstu deild, eins og flestir liðsfélagar hennar hjá ungu og skemmtilegu Víkingsliði. „Þetta er búið að vera geggjað. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er almennilega í efstu deild og það á við um okkur flestar. Við ætlum að njóta og halda okkur í þessari deild.“

Emma Steinsen Jónsdóttir
Emma Steinsen Jónsdóttir mbl.is/Kristinn Magnússon

Emma lék einn leik með Fylki í efstu deild árið 2021, en hún á ekki góðar minningar frá þeim leik. Hún fékk lítið sem ekkert að spreyta sig hjá Fylki og því lá leiðin til Víkings.

„Ég vil helst eyða þeim leik út. Við töpuðum 9:0 á móti Breiðabliki og ég segi að Stjörnuleikurinn hafi verið minn fyrsti í efstu deild. Þjálfaranum fannst ég ekki vera tilbúin þá. Það var fínt, því í staðinn fann ég mig í Víkingi. Ég væri örugglega enn þá hjá Fylki ef ég hefði fengið að spila meira. Það er eiginlega fullkomið að ég hafi fundið mig hér í staðinn,“ útskýrði hún.

Víkingur stal senunni í íslenska fótboltanum á síðasta ári er liðið varð bikarmeistari, fyrst liða utan efstu deildar. Liðið er því vant að spila á móti liðum úr Bestu deildinni.

„Við vorum í bikarnum og gerðum vel á móti bestu liðunum. Við vissum því hvað við vorum að fara út í. Það er betra að fara í leik þar sem er minni pressa á manni sjálfum. Við áttum að vera stóra liðið í dag og ég held við höfum meitt okkur á því,“ sagði Emma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert