Gengi bréfa Meta, móðurfélags Facebook, hefur hækkað lítillega frá opnun markaða. Félagið birtir ársfjórðungsuppgjör síðar í dag, en greinendur á markaði spá því að tekjur félagsins haldi áfram að dragast saman. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Árið hefur verið erfitt fyrir Meta, líkt og önnur tæknifyrirtæki vestanhafs. Þá hefur samkeppnin á samfélagsmiðlamarkaði aukist gríðarlega, sér í lagi með auknum vinsældum TikTok.

Greinendur spá því að Meta hagnist um sex milljarða dala á fjórða ársfjórðungi. Það er 40% minni hagnaður samanborið við árið áður. Þá spá greinendur því að tekjur félagsins dragist saman um 5,5% milli ára og nemi 31,6 milljörðum dala á fjórðungnum.

Hlutabréfaverð í Meta hefur lækkað um meira en 60% frá því að það náði toppi sínum í september 2021.