Margrét: Ekki auðvelt að finna hvernig skuli vinna Liverpool

Margrét Lára Viðarsdóttir sparkspekingur sagði í Vellinum á Símanum Sport í kvöld að það væri jákvætt fyrir Arsenal að reyna að spila út úr vörninni og losa fyrstu pressu en að liðið væri bara ekki komið nógu langt á veg í þróun sinni til þess að láta það virka gegn liði eins og Liverpool, sem sé frábært í að pressa.

„Þeir eru að reyna. Þeir eru að reyna að vera hugrakkir, þeir eru að reyna að þora af því að þú getur heldur ekkert spilað á móti Liverpool með því að bakka í vörn og ætla að senda háa bolta á miðverðina því [Joel] Matip og [Virgil] van Dijk hirða það líka.

„Þannig að það er ekkert auðvelt að finna lausn á því hvernig á að vinna Liverpool,“ sagði Margrét Lára.

„Þá fer 5:0, eins og gegn [Manchester] United,“ skaut Bjarni Þór Viðarsson sparkspekingur þá inn í.

Umræður þeirra Margrétar Láru, Bjarna Þórs og Tómasar Þórs Þórðarsons, ritstjóra enska boltans á Símanum Sport, um leik Liverpool og Arsenal, sem lauk með 4:0 sigri Liverpool, má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert