Þingmaður handtekinn í ólöglegri orgíu

Jozsef Szajer slasaðist er hann lagði á flótta undan lögreglu. …
Jozsef Szajer slasaðist er hann lagði á flótta undan lögreglu. Hann hafði verið viðstaddur ólöglega orgíu. Ljósmynd/Fidesz

Jozsef Szajer, ungverskur þingmaður á Evrópuþingi, var handtekinn í Brussel í Belgíu fyrir að hafa verið staddur í ólöglegri veislu er virðist hafa verið eins konar kynsvall í rými fyrir ofan hinsegin bar. Szajer er meðal þeirra sem börðust hve harðast fyrir því að í ungversku stjórnarskránni yrði kveðið á um að hjónaband væri einungis fyrir karl og konu.

Szajer, sem er 59 ára, lagði á flótta þegar lögreglu bar að garði síðastliðið föstudagskvöld og slasaðist er hann stökk út um glugga á annarri hæð, að því er fram kemur í umfjöllun breska dagblaðsins Times. Í kjölfarið var hann handtekinn ásamt 24 öðrum og hlaut 250 evru, tæplega 40 þúsund íslenskra króna, sekt fyrir brot á sóttvarnalögum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Brussel reyndi þingmaðurinn að beita fyrir sig friðhelgi sem þingmaður, sem flækti belgíska utanríkisráðuneytið í málið. Szajer sagði af sér á sunnudag án þess að gefa upp sérstaka ástæðu fyrir afsögninni en viðurkenndi að hafa sótt „veislu“.

Þingmaðurinn er einn stofnenda Fidesz-flokksins í Ungverjalandi og meðal helstu samstarfsmanna Viktors Orbans, forsætisráðherra Ungverjalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert